152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[16:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi ræða við hæstv. ráðherra um athugasemd sem ég sé á bls. 15 í frumvarpinu, í 4. tölulið. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í umsögn TIF var vakin athygli á því að engin úrræði eða viðurlög væri að finna vegna vanrækslu aðildarfyrirtækja á upplýsingagjöf til sjóðsins. Að mati ráðuneytisins þykir ekki ákjósanlegt að sjóðurinn fái heimild til dagsekta eða annarra þvingunarúrræða enda samræmist það illa starfsemi sjálfseignarstofnana. Ef til þess kemur að aðildarfyrirtæki sjóðsins afhendi honum ekki umbeðnar upplýsingar mun skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum.“

Ég velti fyrir mér hvort ráðherra geti farið yfir það með mér hvort það hafi verið brugðist við þessari athugasemd, hvort sé ekki ástæða til að bregðast við henni. Ef það er ekki brugðist við þessari athugasemd, eins og ég les út úr þessari tillögu, hvernig á þá að bregðast við eftir á þegar aðildarfyrirtæki sinna ekki sinni upplýsingaskyldu? Ég vil kannski bara fyrst fá það á hreint hvort það sé verið að setja inn einhvers konar þvingunarúrræði til að tryggja þetta og ef ekki, hvers vegna ekki.