152. löggjafarþing — 65. fundur,  8. apr. 2022.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Alla tíð hefur vinnandi fólk þurft að berjast fyrir kjörum sínum með öllum tiltækum ráðum. Í gegnum tíðina hafa sumir atvinnurekendur reynt að brjóta niður félög sem vinna í þágu vinnandi fólks og hafa beitt ansi mörgum skrautlegum leiðum til að ná markmiðum sínum. Algengasta leiðin var að hunsa stéttarfélög með öllu og viðurkenna hreinlega ekki tilvist þeirra. Svo ef það þurfti að beita harðari aðgerðum var jafnan einhver fulltrúi atvinnurekanda sendur á vinnustaðinn til að bjóða ýmislegt í staðinn fyrir það t.d. að ganga ekki í ASÍ, og ef ekkert af þessu dugði vildu atvinnurekendur einfaldlega koma á fót eigin félögum sem gáfu allt eftir, að sjálfsögðu atvinnurekendum í vil með tilheyrandi sundrung fyrir vinnandi fólk. Við könnumst við þetta allt. Nýlegt dæmi vestan hafs, af Amazon, er mjög vel þekkt þar sem fyrirtækið svínaði rækilega á starfsfólki sínu og hótaði því svo ef því svo mikið sem datt í hug að stofna verkalýðsfélag. En þarna var fyrstu tveimur leiðunum beitt.

Þriðja leiðin er mögulega sú allra hættulegasta vegna þess að almennt treystum við verkalýðsfélögum, stéttarfélögum, treystum því að þau vinni í okkar hag. En hlýðnu stéttarfélögin, gulu stéttarfélögin, eru þau sem gefa allt eftir í samningum, eru falin, og erfiðlega gengur að eiga við þau. Nýlega hefur slíkt stéttarfélag verið í mikilli umræðu, félag sem samdi um kaup og kjör við atvinnurekendur áður en nokkur manneskja var einu sinni ráðin í þau störf sem samið var um, sem þýðir að atvinnurekendur sömdu við sjálfa sig í gegnum gula stéttarfélagið starfsfólkinu öllu til mikils miska.

Ég vil nýta tækifærið, herra forseti, og hvetja þingið og ríkið allt til að skipta ekki við fyrirtæki sem semja við gul stéttarfélög og kanna sérstaklega hvaða félög það eru til þess að tryggja að viðskiptum ríkisins sé beint að fyrirtækjum sem eru í öflugum og góðum stéttarfélögum sem berjast fyrir bættum kjörum launafólks samfélaginu öllu til heilla.