Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Jú, auðvitað verðum við að velta öllum steinum við í þessu máli og þá er auðvitað sjálfsagt mál að þeir þrír ráðherrar mæti sem hafa verið kallaðir til. Einhvern veginn hef ég þá tilfinningu þegar ég horfi á þessa bankasölu að ríkisstjórnin hafi komið með rulluna: Kaupi þeir sem kaupa vilja, selji þeir sem selja vilja, mér og ríkisstjórninni að meinalausu svo framarlega sem það eru vinir, vandamenn og fyrrverandi bankaráðsmenn. Ef það þarf engrar rannsóknar við og ef þetta á ekki að vera uppi á yfirborðinu og ræða þetta vel og vendilega í þessari viku þá er eitthvað að. Þá er verið að fela eitthvað. Ég trúi ekki öðru og ég heyri það á núverandi forsætisráðherra að hún er tilbúin að taka umræðuna. Ég vona þar af leiðandi að við fáum þá umræðu sem á þarf að halda í þessari viku um þetta mál.