Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[15:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég verð bara að koma hér upp. Ástæðan fyrir því að samskiptin sem hafa átt sér stað um helgina eru farsakennd er einmitt líka út af orðum hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar sem kom hér upp á undan mér. Við vorum búin að biðja um það alla helgina að forsætisráðherra kæmi, það var mjög skýr beiðni. Okkur fannst sjálfsagt að leiðtogi þessarar ríkisstjórnar og leiðtogi ráðherranefndar um efnahagsmál kæmi hér og flytti munnlega skýrslu, við báðum um það líka. Við báðum ekki endilega um munnlega skýrslu fjármálaráðherra. Píratar voru með sérstaka umræðu til fjármálaráðherra, Miðflokkurinn líka á föstudaginn. Við vildum fá munnlega skýrslu forsætisráðherra, það var beiðni stjórnarandstöðunnar, ekki munnlega skýrslu fjármálaráðherra. Því var hafnað með fáránlegum afsökunum og einhverjum orðhengilshætti og ég veit ekki hvað, um form og hefðir og annað eins, sem ég er búin að heyra milljón sinnum, síðan ég kom inn á þing. Það var ekki hægt. Forsætisráðherra var augljóslega í skjóli. En hún hefur orðið við því að koma í sérstaka umræðu, (Forseti hringir.) sem er mun styttri umræða, nota bene, en hún hefur orðið við þeirri beiðni og ég fagna því. En vinsamlegast ekki koma hingað upp og segja að við höfum ekki beðið um þetta fyrr, við fengum bara ekki svar fyrr en í morgun.