152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og get tekið heils hugar undir það að við þurfum að taka dýpri umræðu um þetta allt. Ég deili áhyggjum hæstv. ráðherra af því að bilið sé að breikka á milli hópa innflytjenda á Íslandi, að ákveðnir hópar séu í ákveðinni forréttindastöðu meðan aðrir eru algjörlega upp á náð og miskunn stjórnvalda komnir og búa við mjög lök kjör.

Hæstv. ráðherra talar hér um stefnumörkun af sinni hálfu, sem standi fyrir dyrum, um útlendingamál. Nú er það bara þannig, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að hæstv. ráðherra og hans flokkur eru í samstarfi við flokk sem hefur á undanförnum árum rekið mjög harða og ógeðfellda, verð ég að segja, útlendingapólitík. Sá flokkur fer með útlendingamál að mjög verulegu leyti, stefnumótun, í ríkisstjórn samkvæmt forsetaúrskurði.

Ég vil bara fá að spyrja hæstv. ráðherra hvort það að leiða þennan flokk til valda öðru sinni og það að fela þessum flokki stefnumótun um málefni mikils fjölda útlendinga á Íslandi sé ekki einmitt til þess fallið að breikka það bil sem hann hefur áhyggjur af og lýsir áhyggjum af.