152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

leiðrétting búsetuskerðinga.

[15:11]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og ég hef greint frá hér í þessum ræðustól og annars staðar þá erum við að horfa til þess að greiða fjögur ár aftur í tímann. Ég hef útskýrt hvers vegna það er og hef svo sem ekki miklu við það að bæta. En mig langar að taka aðeins dýpri umræðu um það sem snýr að séreignarsparnaðinum, sem hv. þingmaður kom inn á líka. Þar skiptir fyrir mér mjög miklu máli að það fólk sem varð fyrir skerðingum vegna þess að þetta var ekki rétt skráð inn á skattframtal verði aðstoðað við að fá það til baka sem það á rétt á að fá til baka. Ég hef þegar haft samband, eða minn ráðuneytisstjóri, við fjármálaráðuneytið og óskað eftir upplýsingum um stöðuna á framkvæmdinni á þessu úrræði. Við getum því vonandi látið þetta leiðréttast sem allra fyrst fyrir þau sem brotið var á.