Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.

643. mál
[13:33]
Horfa

Frsm. ÍVN (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021 sem lögð er fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Tillögutextinn hljómar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd tveggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 1. september 2021, um aukið vestnorrænt samstarf á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála (nr. 1/2021) og um samstarf vestnorrænna háskóla um fjarkennslu (nr. 2/2021).“

Tillögutextinn er ekki flóknari en þetta. En mig langar aðeins að gera stuttlega grein fyrir innihaldi þessara ályktana.

Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2021, sem haldinn var 31. ágúst til 1. september, voru samþykktar tvær ályktanir.

Sú fyrri fjallar um aukið samstarf milli Grænlands, Færeyja og Íslands á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála. Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Vísindarannsóknir sýna að hlýnun á norðurslóðum er tvöfalt meiri en annars staðar á jörðinni og að áhrif áframhaldandi hlýnunar verða víðtæk fyrir íbúa svæðisins. Íbúar á svæðinu finna allir fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og mikilvægt er að löndin gegni áfram lykilhlutverki í þeirri viðleitni að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd á svæðinu. Aukið vestnorrænt samstarf um sameiginlega hagsmuni í loftslagsmálum getur aukið áhrif landanna þriggja á alþjóðlegum vettvangi.

Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2021 hvetja menntamálaráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja til þess að aukið verði samstarf landanna þriggja um háskólamenntun með aðstoð fjarkennslu. Tækniþróun, bætt fjarskipti og aukin reynsla af fjarkennslu hafa undanfarin ár gjörbreytt möguleikum íbúa strjálbýlla svæða til að sækja sér fjölbreytta háskólamenntun. Fjarlægðir geta verið miklar í vestnorrænum löndum, sérstaklega á Grænlandi og Íslandi. Fjarnám gefur fólki sem býr fjarri höfuðborgum eða þéttbýliskjörnum kost á að sækja sér margvíslega menntun. Með þetta í huga m.a. er hvatt til þess að menntamálaráðherrar landanna þriggja skoði möguleika á að innleiða fjarnám í samstarfi háskóla í löndunum þremur. Háskólar í þeim bjóða í vaxandi mæli upp á fjarkennslu í margvíslegum fögum og með því að tengja þá enn sterkari böndum mætti betur deila þekkingu og reynslu milli landanna.

Þetta eru sem sagt tvær tillögur sem voru á síðasta ári samþykktar á ársfundi Vestnorræna ráðsins og hér er verið að fylgja því eftir með því að beina því til ríkisstjórnarinnar á Íslandi að vinna að framkvæmd þessara tveggja ályktana.

Það er hægt að kynna sér málið frekar í greinargerð sem fylgir frumvarpinu en ég hef hér rakið helstu atriði málsins. Að þessari umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar til frekari umfjöllunar og vona svo að þetta verði eitt af þeim málum sem samþykkt verða í þinglok, enda snýst það um að vinna að því sem þegar hefur verið samþykkt á vettvangi Vestnorræna ráðsins.