Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.

643. mál
[14:19]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áhuga á því að þessi umræða fari inn í fastanefndirnar aðrar en hv. utanríkismálanefnd einmitt til þess að við tengjum saman þessi viðfangsefni sem eru á borðum þessara nefnda. Auðvitað er það síðan í höndum nefndanna hvernig þær gera það og hvað þær vilja gera með það. En ég held að það sé svo mikilvægt að við skiljum tengingarnar, hve mikið er undir og hvernig það sem við gerum heima hjá okkur skiptir máli fyrir alþjóðasamstarfið og öfugt, því að það eru kannski ekkert endilega skýr skil þarna á milli.

En hvað varðar Vestnorræna ráðið þá finnst mér það góða samstarf skipta okkur miklu máli. Það er auðvitað rétt eins og hv. þingmaður bendir á, við erum örríki. Við höfum kannski ekki alltaf mikinn áhuga á því að ræða það en það skilgreinir samt stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu. En það er samt þannig að það er ekki stærðin sem skiptir öllu máli hér heldur það hvað fólk hefur fram að færa, hvaða stöðu við höfum og fyrir hvaða málefnum við berjumst. Á sviði loftslagsmála og menntamála, eins og hér er verið rætt, hefur Ísland mjög margt fram að færa. Okkur ber að deila því með vinaþjóðum okkar í þessu samstarfi sem og öðru og það setur okkur auðvitað líka þær skyldur á herðar að við séum fyrirmynd þegar kemur að því sem þessi tvö dæmi fjalla um, loftslagsmálum, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, og uppbyggingu fjarkennslu á háskólastigi. Mjög nærtækt og eitthvað sem ætti að vera eðlilegt og skynsamlegt samtal þessara þingnefnda hér á okkar ágæta vinnustað.