Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.

643. mál
[14:39]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Sem nýliða í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins langar mig aðeins að blanda mér inn í þessa umræðu. Það er mjög áhugavert að hlýða á þá góðu umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag. Ég ætla ekkert að lengja þetta neitt afskaplega mikið en það er einn þáttur meðal þessara þjóða sem ekki hefur verið nefndur hér sem við eigum sameiginlega. Þessar þjóðir eru þannig gerðar að þær hafa í sjálfu sér byggt allt sitt á nýtingu náttúruauðlinda, þá fyrst og fremst fiskveiðiauðlindarinnar og því sem kemur úr sjónum. En ég held að það sé mjög mikilvægt að við fjöllum um fæðuöryggi þjóðanna í Vestnorræna ráðinu. Þessar þjóðir eiga það sameiginlegt að þær eru verulega háðar innflutningi á aðföngum, hvort sem er matvælum eða annarri hrávöru, olíu eða öðru. Mig langaði bara til að koma því að hér og minnast á það — við erum jú nokkur að fara til Grænlands 14. júní næstkomandi — að þetta er sá þáttur sem við þurfum að taka aðeins meira upp og ræða. Í ljósi stríðsins í Úkraínu og þess sem er að gerast í heiminum í dag verður umræða um fæðuöryggi alltaf meiri og meiri og menn fara að líta sér nær í þessu. Þetta eru ekki þjóðir sem framleiða sína eigin kornvöru. Við gerum það eitthvað aðeins hér á Íslandi en það er afskaplega takmarkað í Færeyjum og ég held að það sé alls ekki neitt á Grænlandi — það er afskaplega takmarkaður landbúnaður sem er stundaður á Grænlandi, það er þá fyrst og fremst það sem snýr að sauðfé og hreindýrum. Í Færeyjum er töluvert mikil mjólkurframleiðsla og líka búskapur með sauðfé. En Færeyingar og Grænlendingar eru afskaplega háðir því að flytja inn allt gróffóður og kjarnfóður í sínar skepnur og menn eru því enn háðari öðrum í því sem snýr að fæðu handa mannfólkinu. Það var bara þessi punktur sem mig langaði að koma með inn í þessa umræðu. Við höfum einbeitt okkur mikið að umhverfis- og loftslagsmálum, horft á grænar lausnir og þess háttar og þingsályktunartillagan sem verið er að fjalla um hérna er mjög góð. En þetta er hlutur sem við megum ekki skauta fram hjá í umræðunni því að þetta verður alltaf stærra og mikilvægara málefni til að fjalla um. Þarna eigum við virkilega sameiginlegan vettvang, Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar.