Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.

643. mál
[14:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er áhugavert efni og ég kem klyfjaður pappír til þess að sýna að þrátt fyrir allt þá höfum við verið að sinna þessum nágrönnum okkar vinum og frændum, og samskiptum við þá, meira en lengi vel. Það er alveg full ástæða til að hrósa og þakka fyrrverandi utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og hans góða starfsliði fyrir tvær skýrslur sem hafa verið unnar á síðustu árum. Fyrst Grænlandsskýrslu — og takið eftir þessum bunka, þetta er útdrátturinn. Gríðarlega stórt og mikið rit, 199 tillögur, sem var gefið út, minnir mig, í ársbyrjun 2021 og síðan fylgt eftir með skýrslu um Færeyjar og Ísland, og samskipti þeirra þjóða, árið 2021. Á þessu getum við byggt og við eigum að byggja á þessu vegna þess að þetta er gríðarlega vönduð vinna. Mér finnst að samskiptum þessara þjóða sé svolítið svipað farið og listunum, þær geta verið gagnlegar og þær geta haft efnahagslegan ávinning fyrir fólk og samfélög en fyrst og fremst eru þær náttúrlega mikilvægar í sjálfu sér. Þessi samskipti eru nefnilega dálítið mikilvæg í sjálfu sér, bara út af því hver við erum, hvar við erum, hvernig við erum; þessir furðulegu hlutir sem tengja okkur saman.

Þegar ég hugsa um þessar þrjár þjóðir þá dettur mér í hug skáldið Jón úr Vör og kvæðasafnið hans Þorpið sem kom út 1946, sem lýsir ágætlega þessum þjóðum. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp lítið ljóð úr Þorpinu:

Og manstu hin löngu,

mjólkurlausu miðsvetrardægur,

útmánaðatrosið

bútung, sem afvatnast í skjólu,

brunnhús

og bununnar einfalda söng,

báta í nausti

og breitt yfir striga,

kindur í fjöru,

og kalda fætur,

og kvöldin löng eins og eilífðin sjálf,

oft var þá með óþreyju beðið

eftir gæftum

og nýju í soðið.

 

Og manstu

eitt kvöld undir rökkur.

Þú stóðst í fjöru með fóstru þinni.

Þið horfðuð með ugg á frosna hlunna,

út fjörðinn,

til himins, —

þið áttuð von á litlum báti fyrir eyrarodda,

en hann kom ekki.

 

Og manstu

gleði þína á miðri nóttu,

er þú vaknaðir við, að á koll þinn

var lagður vinnuharður lófi

og um vanga þinn

strokið mjúku og hlýju handarbaki.

Fóstri þinn var kominn

— og kyssti þig, er þú lagðir hendur um háls hans.

Og það var enn kul í sjóvotu yfirskegginu.

 

Og næsta morgun var blár steinbítur

á héluðum hlaðvarpssteini,

og sól sindraði í silfri ýsuhreisturs, —

og hamingja í húsi fátæks manns.

Þetta finnst mér segja svolítið um sögu þessara þriggja þjóða. Við eigum það sameiginlegt að í gegnum aldirnar höfum við lifað a.m.k. jafn mikið „þrátt fyrir náttúruna og landið“ en „af því“, en með tækni, með viti, með samvinnu höfum við smám saman getað snúið á hin óræðu náttúruöfl og kannski síðustu 100 árin hafa allar þessar þjóðir einhvern veginn náð að nýta sér og lifa af náttúrunni. Þar er hægt að nefna fiskveiðar sem eru nú orðnar öruggar en voru ótryggar. Það er hægt að nefna ferðaþjónustu. Allt í einu var hægt að selja fólki það að koma og skoða náttúruna, skoða landið og kynnast fólkinu, svo að ég tali nú ekki um þá ótrúlegu möguleika sem felast í jarðfræðinni, hjá Grænlendingum sérstaklega, og námavinnslu — ég vona samt að þeir beri gæfu til að fara sparlega með það. Allt er þetta vitni um það hvernig hægt er að snúa vörn í sókn og þessar þjóðir eiga þetta fyrst og fremst sameiginlegt.

Í ræðunum hér á undan hefur nokkrum sinnum verið talað um það hvað við getum lagt af mörkum og hvað við getum kennt þessum þjóðum og ekki ætla ég að gera lítið úr því. En við skulum líka muna að við getum lært ótrúlega mikið af þessum þjóðum. Þær geta nefnilega kennt okkur ýmislegt. Við höfum kannski í frekara mæli en þær komist hratt yfir í nútímann en að einhverju leyti kannski glatað æðruleysinu, rónni og núvitundinni sem maður sér og finnur að er svo rík hjá þessum þjóðum. Ég held að líf þessara þriggja landa sé ofið ótrúlega svipuðum þræði. Það væri náttúrlega mjög sorglegt ef þær nýttu sér það ekki sameiginlega til að leggja áherslu á þau mál sem nauðsynlegt er að leggja áherslu á í dag. Þá á ég náttúrlega fyrst og fremst við það að þetta eru smáar, friðelskandi lýðræðisþjóðir sem eiga allt undir því að lönd jarðarinnar hagi sér skikkanlega, gangi vel um náttúruna og fari vel með þá nýju auðlind sem öll stórveldi heimsins hafa augastað á, auðlind sem heitir norðurslóðir. Þar getum við verið þessi rödd sem stundum vantar þegar hagsmunirnir, hinir efnahagslegu, hinir hernaðarlegu, eru orðnir miklir, rödd skynseminnar og yfirvegunarinnar.

Við getum þar fyrir utan unnið ótrúlega mörg verk sameiginlega, á sviðum þar sem hagsmunir fara bókstaflega saman. Nærtækast er að nefna fiskveiðarnar. Þessar þjóðir eru allar miklar fiskveiðiþjóðir, hver með sínum hætti. En í áranna rás hefur þetta kannski færst yfir á svipaðar slóðir og við eigum góða samvinnu, bæði við Færeyinga og Grænlendinga. Það eru fyrirtæki í báðum þessum löndum. Það eru færeyskir og grænlenskir útgerðaraðilar að vinna hér innan landhelginnar samkvæmt samningum. Þetta eigum við bara að styrkja og efla. Ferðaþjónustan getur auðvitað líka orðið verkefni sem þjóðirnar geta unnið saman að. Ég held að það væri ekki vitlaust að þessar þrjár þjóðir myndu leggjast í stefnumótunarvinnu við að finna út með hvaða hætti hægt er að byggja upp arðbæra en sjálfbæra og skynsamlega ferðaþjónustu, sem byggir ekki á massatúrisma, sem byggir ekki á því módeli að safna sem flestum á einhvern smátíma á meðan löndin eru í tísku og svo fellur allt; hugsa til lengri framtíðar og sætta okkur við að það er kannski betra en að ætla að gleypa allan bitann í einu.

Svo eru það auðvitað hversdagslegri mál sem skipta miklu máli og ég þori nú ekki að sleppa því að minnast á þau vegna þess að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson er kominn í salinn. Við höfum ótrúlega stór sameiginleg verkefni á sviði flugumsjónar og flugumferðarstjórnar á þessu svæði. Öll þessi ríki liggja úti í miðju hafi og þau flugfélög sem ætla að fara frá Evrópu til Ameríku komast varla hjá því að horfa niður á eitthvert af þessum þremur löndum. Ég held því að við höfum mjög víða mikil tækifæri.

Ég ætla að enda á því sama og ég byrjaði: Hvort sem um er að ræða á sviði loftslagsmála eða menntunar, eins og talað er um í þingsályktunartillögunni þá hvet ég nefndina til að fara rækilega yfir þessar vönduðu skýrslur sem gefnar voru út fyrir einu og tveimur árum, annars vegar um Grænland og hins vegar um Færeyjar. Þar er ótrúlega góður vegvísir að farsælu samstarfi sem byggir á virðingu en líka á sameiginlegum hagsmunum þessara ríkja.