Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

áhafnir skipa.

185. mál
[21:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að kynna mig til leiks ef mig skyldi kalla. Ég kem hérna aðeins bara til að segja nokkur orð um þetta mál og kannski enduróma neyðarkall sem þingheimi barst frá hópi sjófarenda sem óska eftir því að við þingmenn greiðum atkvæði gegn því frumvarpi sem hér er verið að afgreiða. Við fengum tölvupóst um það og það heyrðist glöggt þeirra afstaða þegar þeir komu fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd um helgina. Þeir telja sérstaklega að fyrirhuguð breyting á umræddum lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa og fleira sem heimili réttindalausum manni að gegna stöðu stýrimanns sé útivist skips styttri en 19 tímar megi alls ekki verða að lögum, þ.e. að þrátt fyrir ákvæði í lögunum sé hásetum á skipum 15 metra eða styttri sem hafa að baki siglingatíma í tólf mánuði á síðastliðnum þremur árum, heimilt að gegna stöðu stýrimanns sé útivist skips styttri en 19 tímar, þ.e. að einstaklingur sem hefur verið úti í 18 tíma geti unnið upp fyrir sig, ef svo má segja.

Það eru fulltrúar frá Félagi skipstjórnarmanna, formaður þess félags, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, formaður Sjómannasambands Íslands, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og formaður Sjómannafélags Íslands sem senda neyðarkall undir merkjunum „Mayday Mayday“ í tölvupósti og segja þessir fulltrúar sjófarenda að það skjóti skökku við að á sama tíma og unnið er að öryggisáætlun sjófarenda skuli löggjafinn, þ.e. við hér, þingheimur, áforma að setja í lög að réttindalaus einstaklingur geti gegnt stöðu stýrimanns. Benda þeir á að fram komi í greinargerð með frumvarpinu að frá aldamótum hafi 50 skipströnd átt sér stað sem rakin eru til þreytu og vinnuálags skipverja á bátum sem eru 15 m og styttri. Þrátt fyrir þetta sé það nú lagt til af meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að útivistartími smáskips með skerta mönnun megi vera allt að 19 klukkustundir á hverjum 24 klukkustundum.

Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni og ég get ekki annað en tekið undir varnaðarorð þeirra sem best þekkja til aðstæðna á hafi úti. Við getum gert þetta betur og við eigum að geta betur og við eigum að gera betur. Þetta er mikilvægt öryggisatriði og ég tek undir með sjófarendum þarna.