Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að verkefni ríkisstjórnarinnar verði ærið og hún verður að vera búin að móta sér stefnu sem hún getur fylgt eftir í kjarasamningunum, í samtölum við aðila vinnumarkaðarins. Fyrir mína parta gengur ekki að ríkisstjórnin skrifi undir hugsanlega mikla útgjaldaaukningu samhliða lækkun gjalda og skatta. Það tvennt fer ekki saman. Ég er sammála hv. þingmanni að við eigum miklu frekar að skoða svigrúm, hvata og hugsanlega lækkun skatta í tengslum við kjarasamningana. En við verðum að fara varlega. Svigrúm ríkisins er ekki mikið hjá ríkisstjórninni. Ef ríkisstjórnin ætlar að nota það svigrúm í eitthvað þá verður hún að vera komin með sýn og stefnu hvað það varðar. Ef ég væri þar sem þau eru, myndi ég segja: Gott og vel. Aðilar vinnumarkaðarins, þið verðið að leysa þetta að mestu sjálf. Við ætlum að forgangsraða m.a. í það sem brennur helst á ríkinu og það eru heilbrigðisstéttirnar, það er umönnunin. Við ætlum að forgangsraða því svigrúmi sem við höfum til að taka þann partinn og ýta undir þann þátt sem snertir heilbrigðiskerfið og umönnunarstéttirnar, heilbrigðisstéttirnar. Við verðum að fara að þora að taka utan um þær stéttir til að við sinnum heilbrigðismálunum mun betur. Ég held að ríkisstjórnin hafi miklu þrengra svigrúm en hún hafði síðast þegar hún þrammaði sjálf upp með lífskjarasamninginn í ráðherrabústaðinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann hafi áhyggjur af því, eins og við í Viðreisn, að nú sé ríkisstjórnin búin að gefa merki varðandi 7,7% hækkanir á ýmsum gjöldum, m.a. bifreiðagjöldum, gjöldum sem hafa áhrif á millitekjufólkið, fólkið með lágar tekjur og millitekjur í landinu. Þetta mun hafa bein áhrif á það og heimilisbókhald þess. Þetta er ekki síst mikilvægt núna þegar sveitarfélögin standa frammi fyrir að gera fjárhagsáætlanir, þ.e. að ríkisstjórnin er búin að gefa merki hvað þetta varðar. Deilir hv. þingmaður með mér þeim áhyggjum (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin sé búin að ákveða svo miklar hækkanir að svigrúm sveitarfélaga (Forseti hringir.) til að koma til móts við m.a. heimili landsins, heimili sveitarfélaganna verði minna en ella?