Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:22]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við virðismat kvennastarfa. Ég er hjúkrunarfræðingur og tilheyri stórri kvennastétt sem ber þess því miður merki að laun eru ekki í takt við þá menntun og þá ábyrgð sem liggur í starfinu. Markmið okkar hlýtur að vera að í sem flestum störfum sé jafnvægi í kynjahlutfalli og það jafnvægi byggist á hæfni, menntun og reynslu hvers og eins. Á þessari vegferð höfum við ákveðin verkfæri til að meta hvert starf þannig að greidd séu jöfn laun fyrir öll kyn fyrir sömu ábyrgð. Sem betur fer hefur dregið verulega úr kynbundnum launamun á undangengnum árum fyrir tilstuðlan aðgerða, innleiðingu á starfsmati hjá sveitarfélögum og kröfu um jafnlaunavottun.

Ef ég nefni aftur mína starfsstétt, hjúkrunarfræðinga, er ástæða þess að þeir leita í önnur störf því miður of lág laun miðað við þá ábyrgð sem liggur í þeirra starfi og þá menntun sem liggur að baki gráðunni hjúkrunarfræðingur. Markmið okkar hlýtur að vera að fá alla okkar hjúkrunarfræðinga til baka, fá þá aftur til starfa. En hvernig gerum við það? Það þarf að skapa góðar starfsaðstæður og greiða þeim laun fyrir sitt starf í takt við þá ábyrgð og menntun sem liggur að baki gráðunni. Ég vil í því samhengi einnig tala fyrir tækifærum til að efla heilbrigðisþjónustu með erlendu framhaldsnámi hjúkrunarfræðinga sem þarf að viðurkenna að hér á landi. Það framhaldsnám nefnist klínískur sérfræðingur og er erlent framhaldsnám sem nefnist á enskri tungu „nurse practitioner“. Erlendis eru klínískir sérfræðingar með heimild til að skrifa út ákveðin lyf og gætu þannig létt á læknastéttinni ef þessi menntun yrði samþykkt hér á landi. Námið þýðir aukin ábyrgð og fyrir það þarf auðvitað að greiða svo hjúkrunarfræðingar sjái bæði hvata til að fara í grunnnám í hjúkrunarfræði, fara í framhaldsnám og uppskeri svo í takt við þá ábyrgð og menntun sem stendur undir stórum hluta öflugs heilbrigðiskerfis.