Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til þess að fjalla aðeins um áhrif á jafnrétti kynjanna í fjárlagafrumvarpinu sem er frekar áhugavert að skoða með tilliti til alls sem þetta málefni fjallar um. Í fjárlagafrumvarpinu er sagt að nýr hluti útgjaldaráðstafana sé greindur með aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar. Hér er flott tafla sem sýnir að 81% af öllum rammasettum útgjöldum ríkissjóðs á árunum 2020–2023 sé til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Í kynningu ráðuneytisins í fjárlaganefnd er sagt að velflestar aðgerðirnar séu til þess ætlaðar að auka jafnrétti en lítill hluti þeirra til að búa til í rauninni meira ójafnrétti. Lítill hluti. Það er merkilegt, sérstaklega það sem segir í þeim kafla:

„Karlar voru í forsvari fyrir um þrjá fjórðu hluta umsókna árið 2021. Stór hluti fyrirtækja sem fengu skattafrádrátt á árinu 2021 starfar við hugbúnaðargerð eða framleiðslu á tækjum og búnaði þar sem mikill meiri hluti starfandi er karlar …“

Samt kemur ráðuneytið fyrir fjárlaganefnd og segir að lítill hluti aðgerðanna í fjárlagafrumvörpum undanfarinna ára sé til að auka á misrétti. Það er bara ósatt. Ég skil ekki hvernig ráðuneytið kemst upp með að segja þetta þegar fjárlagafrumvarpið sjálft segir annað. Það er stórkostlega skrýtið. Í umfjöllun um framkvæmdaverkefni segir: „Sé eingöngu litið til atvinnuskapandi áhrifa á framkvæmdatíma hallar verulega á konur …“ Samt segir ráðuneytið að áætlanir ríkisstjórnarinnar stuðli að jafnrétti að mestum hluta. Það er bara ósatt. Ég nota stór orð hérna, takk fyrir, til að leggja áherslu á að það er ekki boðlegt að ráðuneytin komi fyrir þingið og nefndir þingsins og segi eitthvað sem er ekki satt.