Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:27]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir frumkvæðið að umræðu um virðismat kvennastarfa. Ég veit að ég er ekki fædd í gær en samt ekkert fyrir löngu síðan, að mér finnst. En þegar ég fór í mína fyrstu vinnu í sláturhúsinu var kvennataxti og karlataxti og svo sér taxti fyrir börn yngri en 16 ára. Því gat 17 ára karlmaður unnið við hliðina á fullorðinni konu, sem var hokin af reynslu, og fengið hærri laun.

Hér erum við á árinu 2022 og hver er umræðan? Við eigum að ræða launamun kynjanna en líkt og kemur fram í þessari skýrslu eru meginástæður þess launamunar kynskiptur vinnumarkaður. Það er fleiri en ein ástæða fyrir mikilvægi þess að leiðrétta verðmæti kvennastarfa með hærri launum og hér er ein sem ég tel að muni verða háværari þegar fram í sækir ef ekkert er að gert. Konur vinna fulla vinnu. Svo koma þær heim á þriðju vaktina og vinna almennt meira ólaunaða vinnu við heimilisstörf og barnauppeldi og umönnun ættingja en karlar. Það á ekki að vera þannig að þriðja vaktin eigi að vera verkefni kvenna. Þá minnka þær frekar við sig starfshlutfallið, hlaupa hraðar, nú eða eru líklegri til að keyra í kulnun. Við erum farin að sjá afleiðingar af því; tveir þriðju hlutar þeirra sem leita til VIRK eru konur og mikil aukning hefur verið þar í hópi háskólamenntaðra kvenna á liðnum árum. Á sama tíma vinna karlar fleiri vinnustundir í launaðri vinnu. Sem liður í því að ná fram betra jafnrétti, bæði í vinnu sem og á heimilum landsins, þarf að auka virðismat kvennastarfa. Með því geta karlar unnið minna og tekið aukinn þátt í umönnun barna og ættingja ásamt heimilishaldi. Þetta getur leitt til betra jafnvægis á milli vinnu og einkalífs fyrir alla.