Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í henni. Ég vil benda á áhugavert kynjajafnræði hér í þingsal í þessari umræðu sem er eiginlega táknrænt. Mig langar aðeins að tala um kynbundinn launamun enda er í skýrslunni, sem liggur hér til grundvallar, töluverð umræða um hann. Við ræðum svolítið mikið um óútskýrðan launamun, veltum honum fyrir okkur, en sá kynbundni launamunur sem hægt er að útskýra er minna ræddur, en starfsstéttir sem að miklum meiri hluta eru skipaðar konum eru verðmetnar lægra. Við höfum eytt orkunni svolítið mikið í að ræða akkúrat hitt og látið þetta liggja svolítið eftir. Það er kannski flóknara og erfiðara að ráðast í þetta stóra vandamál. Mig langar þess vegna að minna á þingsályktunartillögu Viðreisnar sem var samþykkt vorið 2018 og bar titilinn: Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Hún fjallaði nefnilega ekki bara um að skila skýrslu um verðmætamat kvennastétta heldur um að ráðherra myndi efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga til að tryggja jafnræði við launasetningu. Reyndar hafði meiri hlutinn, þegar tillagan var samþykkt, tekið mesta bitið úr tillögunni sem var upphaflega lögð fram með orðræðu um sérstakt þjóðarátak, jafnvel gerð sérstaks kjarasamnings. Það væri óskandi að hæstv. forsætisráðherra sæi tækifæri í aðdraganda kjaraviðræðna til að styrkja stöðu kvennastétta á vinnumarkaði með því að líta til þessarar samþykktar og vilja Alþingis frá því fyrir fjórum árum.

Mig langar að lokum að nefna að í skýrslunni, sem liggur hér til grundvallar, er góður kafli um stöðuna á Nýja-Sjálandi. Þegar kafað er ofan í það sem þar var gert þá virðist munurinn kannski fyrst og fremst vera sá að eftir alla þá vinnu sem þar var lagt í, eins og hér hefur verið gert, tóku stjórnvöld boltann og skiluðu honum áfram.