Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

viðbrögð opinberra aðila við náttúruvá.

[14:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Nú er það svo, eins og hv. þingmaður kom inn á, að við búum á landi þar sem við erum ekki aðeins vön eldsumbrotum og jarðhræringum, sem fylgja því að búa hér, heldur erum líka farin að finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga í auknum öfgum í veðurfari. Mér er sagt af fólki fyrir austan, og hv. þingmaður þekkir það auðvitað miklu betur, að annað eins hafi ekki sést þegar kemur að óveðrinu sem þar var í vikunni. Skriðuföllin á Seyðisfirði eru annað nærtækt dæmi og við getum haldið áfram. Raunar má segja að undanfarin ár hafi einkennst af mjög miklum hamförum.

Hv. þingmaður spyr hér um viðbrögð stjórnvalda: Hvað er rétt að gera næst? Hvernig ætlum við að læra af þessari reynslu? Ég vil byrja á því að nefna að þegar óveðrið mikla skall á 2019, í desember, var ráðist í mikla vinnu við að meta áfallaþol samfélagsins alls, ráðist í uppbyggingu á innviðum, gerð tíu ára áætlun sem hefur verið fylgt eftir árlega. Næsta eftirfylgniskýrsla mun koma í lok þessa árs. Það er hægt að skoða þetta allt á heimasíðunni sem enn er aðgengileg, þar sem farið er yfir innviðina. Ég held að þetta hafi verið gríðarlega mikilvæg vinna til að byggja upp þetta heildaráfallaþol. Það breytir því ekki að við þurfum alltaf að takast á við einhver mál. Hv. þingmaður nefnir hér möguleikann á því að fara í einhvers konar heildarúttekt, væntanlega til að horfa á einhverjar breytingar á stjórnskipulagi. Við erum með náttúruhamfaratryggingu, við erum með ofanflóðasjóð, við erum með Bjargráðasjóð og einhvern tímann var skilað skýrslu um svokallaðan hamfarasjóð sem átti að vera einhvers konar sameiginlegur sjóður.

Ég held að áður en ákveðið verður að ráðast í einhverja mikla heildarúttekt væri ráð, af því að við höfum auðvitað verið með nokkuð skýrt vinnulag, (Forseti hringir.) að meta hvernig það vinnulag sem við höfum haft á undanförnum árum, og hefur verið gripið til vegna Seyðisfjarðar, vegna skriðufalla í Útkinn, vegna óveðurs 2019 og vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga, hefur virkað. Teljum við að þetta fyrirkomulag sé að virka? Ef ekki þá þurfum við að benda á hvað það er sem virkar ekki.