Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Örstutt í upphafi um það sem hv. málshefjandi spyr um. Varðandi þyrlumálin þá vil ég minna á það að í fyrra var þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar fjölgað úr fimm í sex til að efla viðbragðsgetu. Á árunum 2018–2021 var þyrluflotinn endurnýjaður. Í fyrra bættist varðskipið Freyja við flotann í stað varðskipsins Týs og það stendur til að taka nýtt flugskýli í notkun fyrir Gæsluna. Stjórnstöðin hefur verið efld á undanförnum árum með ferilvöktunarbúnaði, viðvörunarbúnaði, aukinni þjálfun varðstjóra og betri samhæfingu við aðra neyðar- og björgunarþjónustu á landinu þannig að efling Gæslunnar stendur yfir. Spurningin sem hv. þingmaður er með er þá væntanlega hvort bæta eigi sjöundu áhöfninni við og það kann að koma til greina því þetta er alveg gríðarlega mikilvægt atriði fyrir fullvalda þjóð að Gæslan sé vel í stakk búin og ríkisstjórnin hefur sýnt það í verki að við viljum efla Gæsluna, svo sannarlega. (Gripið fram í.) Ég var að fara yfir þyrluáhafnirnar sem var kannski það sem út af stóð. Nýrri þyrluáhöfn var bætt við í fyrra.

Aðeins um samskiptin við Norðurlöndin. Ég vil bara upplýsa um það að fram undan er fundur norrænna varnarmálaráðherra á vettvangi NORDEFCO samstarfsins vegna atvikanna í gasleiðslunum. Þetta er okkur mjög mikilvægt. Hvað varðar viðveru eða opnun á einhvers konar herstöð þá höfum við ekki metið það sem forgangsatriði í okkar vörnum að hér sé herstöð. Það er nokkuð sem ég hef m.a. rætt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og ekki fengið kröfu um það þaðan.

Ég legg á það áherslu og ég vil ítreka það hér að þjóðaröryggisstefnan sem var samþykkt 2016 hefur reynst vel. Af hverju hefur hún reynst vel? Vegna þess að hún er plagg sem tekur á fleiri þáttum en bara hinum hefðbundnu, hernaðarlegu þáttum. Hún tekur á hinu samfélagslega öryggi. Hún tekur á netöryggi og já, við erum að efla okkar alþjóðlega samstarf í þeim efnum, m.a. í gegnum Atlantshafsbandalagið. Þjóðaröryggisstefnan hefur að mínu viti sannað gildi sitt og ég held að við hér á Alþingi mættum vera meðvituð um það hversu framsýnt plagg þetta var og (Forseti hringir.) ég fann í góðu samtali við utanríkismálanefnd um daginn það sem ég tel vera ágæta samstöðu um það. Þannig að þegar kallað er eftir róttækum breytingum á henni þá held ég að það sé ekki rétt mat. (Forseti hringir.) Ég held að þessi stefna hafi sannað sig, hún hafi verið framsýn og við eigum að vinna áfram á þessum breiða grunni. (Forseti hringir.) Því miður hef ég ekki lengri tíma hér, herra forseti, en það er augljóslega mikil þörf fyrir að ræða þessi mál í þingsal og ég fagna því.

(ÞKG: … greiðir þá atkvæði með henni næst.)