Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[15:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að óska forseta til hamingju með að vera mættur í forsetastól. Mig langar líka að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framsögu á mjög mikilvægu máli sem svo sannarlega er jafnvel enn mikilvægara í dag en það var síðast þegar það var flutt.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann — það er þannig að 21 núverandi þingmaður Íslands hefur skrifað undir ICAN-heitið, ICAN-þingmannaheitið, eða eins og það heitir á ensku, með leyfi forseta: „ICAN parliamentary pledge“. Þar er allur þingflokkur Vinstri grænna og Pírata m.a., en þar má einnig finna þingmenn frá Samfylkingu, Flokki fólksins og Framsókn. Mig langaði að spyrja hv. þingmann af hverju okkur sem höfum skrifað undir þetta heit var ekki boðið að vera með á þessu frumvarpi því að við hefðum svo sannarlega gert það og það hefði jafnvel haft þau áhrif að það fengi enn meiri stuðning innan þingsins.