Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ekki veit ég hvernig mál eiga eftir að þróast á Írlandi en ég veit að það er mjög aukinn áhugi hjá þeim á að skoða breytingar á sínu landamæraeftirliti. Þeir eru hluti af Evrópusambandinu og eru þó milljónaþjóð í sínu samfélagi og að því leyti miklu betur í stakk búnir til að reka sín upplýsingakerfi og það sem þarf að vera til staðar. Ég er algerlega ósammála hv. þingmanni um að þessi söfnun persónuupplýsinga sé ekki mikilvæg í mörgu samhengi. Ég bið bara hv. þingmann að hafa í huga hver þróunin er hér á landamærunum þegar kemur að baráttu okkar gegn skipulagðri glæpastarfsemi og þá auknu áherslu sem við þurfum að leggja á hana. Þetta er hluti af því kerfi sem við þurfum að hafa aðgang að til að geta staðið okkar plikt.

Við getum verið að glíma við vanda sem er hlutfallslega miklu erfiðari en hann er í öðrum löndum. Þegar grannt er skoðað (Forseti hringir.) tel ég óumdeilt að það sé mikill hagur fyrir okkur að vera í þessu samstarfi. (Forseti hringir.) Við njótum miklu meiri réttinda en það myndi kosta okkur að standa í þessu sjálf. Það yrði miklu meiri kostnaður ef við stæðum í þessu ein og sér.