Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

gjaldþrotaskipti o.fl.

277. mál
[16:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er farið hér yfir aðrar leiðir sem hægt væri að fara til að nálgast markmið frumvarpsins. Þær leiðir geta í sjálfu sér verið góðar og gildar en þetta er leiðin sem við höfum valið að fara. Auðvitað get ég ekki tekið undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni að þetta sé eitthvað sérstaklega lagt upp til þess að hefta frumkvöðlastarfsemi og slíkt. Það er einmitt tekið sérstaklega fram í frumvarpinu að um mjög alvarleg brot á góðum viðskiptaháttum þurfi að vera að ræða eða hreinlega brot á lögum um rekstur fyrirtækja sem þarna eru undir, og það hlýtur náttúrlega að geta átt við alla. En það er einmitt sérstaklega vikið að því að mikilvægt sé að vernda hagsmuni fólks þar sem ekkert ólöglegt hefur átt sér stað, heldur bara eins og gengur og gerist og kannski ekki hvað síst hjá frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum sem þurfa að fara í gegnum mikla eldskírn og geta lent í því að vera ekki nægilega vel fjármögnuð. Ég tel að nægilegt tillit sé tekið til þeirra sjónarmiða. Þetta er sú leið sem við förum til að reyna að nálgast þetta mikilvæga mál, að ná utan um þá sem augljóslega eru að starfa á skjön við lög og góða viðskiptahætti.