Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

41. mál
[18:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þannig að með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem tóku gildi 1996, var að ýmsu leyti verið að skerða réttindi en að öðru leyti verið að veita ný réttindi. Það er auðvitað þannig að á Íslandi hefur þetta m.a. þróast í átt að auknum sveigjanleika, rétt eins og annars staðar. Það sem kannski truflar mig við þetta tiltekna frumvarp er hvað þetta er í raun drastískt, svo að ég sletti. Mér finnst einhvern veginn vera mælt fyrir um að fella úr gildi tvö ákvæði sem veita núna ákveðna leiðsögn, sem ég held að brýn þörf sé á, án þess að neitt komi í staðinn. Þess vegna hef ég haft áhyggjur af því að ákveðin réttaróvissa skapist við þetta, óvissa um samspil starfsmannalaganna, stjórnsýslulaganna og svo þessara almennu réttinda á vinnumarkaði. Það kæmi þá væntanlega í hlut dómstóla að skýra betur hver réttindi opinberra starfsmanna eru og mér finnst bara fara betur á því að Alþingi geri það með því hugsanlega að breyta þessum ákvæðum.

Eins og ég nefndi áðan þá finnst mér hv. þingmaður hafa nefnt hér dæmi um tilvik sem þetta áminningarferli sem mælt er fyrir um í lögunum nær ósköp illa utan um og hentar ekki fyrir. Ég hefði kannski frekar vonast eftir einhverri slíkri nálgun.