Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

almenn hegningarlög.

45. mál
[14:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála því að þetta er allt samofið. Kvenhatur, útlendingaandúð, fordómar gegn hinsegin fólki — þetta er allt með sama lögheimili í samfélaginu. Það eru sömu hópar sem, bara eftir því hvernig vindar blása, herja á þessa jaðarsettu hópa í samfélaginu okkar og við sjáum þetta í öllum löndunum í kringum okkur. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur. Það sem er einna verst við þetta er að fólkið sem verður fyrst fyrir þessu, eins og ég kom að í ræðu minni, eru yngstu einstaklingarnir innan þessara hópa. Það er kannski auðveldara að setja skotskífuna á fólk sem er ekki búið að taka sér sess í samfélaginu eins og gerist þegar fólk verður eldra, er veikara fyrir og er á meiri mótunarárum þannig að hægt er að hafa meiri áhrif á hvernig það þróast til framtíðar. Það er auðveldara að bæla niður hugmyndir ef þú gerir það nógu snemma til að þær séu ekki orðnar sterkar hjá fólki.

Við sáum t.d. viðtal í sjónvarpsfréttum í vikunni eða um helgina við þær sem standa að Antirasistunum, instagram-aðgangi sem er að benda á rasisma í íslensku samfélagi; þær eru 16 og 18 ára. Fólkið sem er að berjast fyrir réttindum kynsegin fólks, fólkið sem fer fremst í þeirri baráttu og er að fá á sig allar öldurnar — ég myndi halda að fæst þeirra væru þrítug, sennilega flest undir 25. Þetta fólk á ekkert að vera eitt um að taka slaginn. Það er kannski fínt að við séum komin á virðulegan aldur hér í þingsal og séum að taka einhvern þunga af þessari baráttu vegna þess að við verðum að gera þetta öll saman.