153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

ríkisábyrgð vegna ÍL-sjóðs.

[10:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kynnti á dögunum grafalvarlega stöðu Íbúðalánasjóðs og ráðherra nefndi þrjár leiðir sem færar væru, allar vondar, og tilkynnti jafnframt hvaða leið hann vildi fara. Þetta tilkynnti hann sisvona án þess að ræða málið ítarlega við þingið fyrst sem hefði verið eðlilegt, enda er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða fyrir þjóðina. Nú stendur almenningur frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann eigi að borga í gegnum lífeyrissjóðina sína eða ríkissjóðinn sinn fyrir hagstjórnarmistök Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í byrjun aldarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra talaði í fyrirspurnatíma í gær hér á þinginu um kröfuhafa og fjármálaöflin í þessu sambandi og freistar þess að skapa hugrenningatengsl sem eru hentug hans málflutningi. Staðreyndin er þó sú að hér ræðir um lífeyrissjóðina okkar að langstærstum hluta. Það er ævisparnaður fólks sem sér fram á högg upp á meira en 100 milljarða kr., gangi hugmyndir fjármálaráðherra eftir, og það er mögulegt að það þurfi að skerða lífeyri fólks til að mæta þessum vanda.

Sérfræðingar hafa líka talað um og varað við orðsporshættu fyrir Íslendinga í þessu sambandi með tilheyrandi versnandi lánakjörum. Sendi ríkissjóður, sem veitt hefur ríkisábyrgð, þau skilaboð að hann sé ekki tilbúinn til að standa við skuldbindingar sínar kann það að hafa afleiðingar fyrir lánshæfið. Þegar hefur orðið vart við titring á fjármálamarkaði og ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum hefur hækkað. Nú er þetta mál af þeirri stærðargráðu að það hlýtur að hafa verið rætt mjög vel og margsinnis í ríkisstjórn. Mér leikur forvitni á að vita hvort hæstv. forsætisráðherra sé sammála leiðinni sem hæstv. fjármálaráðherra vill fara og hvort hún hafi verið með í ráðum?