Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Áður en lengra er haldið vil ég hafa það algerlega á hreinu að ég er ekki að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að upplýsa um gang rannsóknarinnar sem héraðssaksóknari fer fyrir gagnvart Samherja fyrir ætluð stórfelld mútubrot í Namibíu og aðra alvarlega glæpi. Það sem ég vil ræða við hæstv. ráðherra eru þær pólitísku ákvarðanir sem hafa verið teknar sem hafa áhrif á getu héraðssaksóknara og annarra rannsóknastofnana á Íslandi til að rannsaka mál af þessari stærðargráðu hratt og vel. Ég vil ræða áhrif þessara sömu ákvarðana á orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.

Yfirmaður vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, gegn mútum, Drago Kos, sagði um daginn að það væri nánast vandræðalegt fyrir Ísland að Namibía drægi vagninn í rannsókn á Samherjamálinu. Kos sagðist varla trúa að embætti héraðssaksóknara væri vanfjármagnað í velmegunarríki eins og á Íslandi. Fjórða endurskoðunarskýrsla þessa sama vinnuhóps gegn spillingu var birt um miðjan desember í fyrra. Þar er íslenska ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir slaka frammistöðu og augljóst áhugaleysi á málinu. Sömuleiðis hafa bæði Rannsóknarstofnun opinberrar stefnu, þ.e. Institute for Public Policy Research, og stofnunin Transparency International sagt að rannsóknarblaðamenn sem og almennir borgarar beggja landa, á Íslandi og í Namibíu, hafi ítrekað mótmælt því opinberlega að aðeins namibískir ríkisborgarar beri lagalega ábyrgð á Samherjamálinu, það sé ekki réttlátt þegar vitað sé að íslenskir ríkisborgarar væru einnig djúpt viðriðnir þetta mútuhneyksli. Það er þar af leiðandi ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvers vegna staða Íslands féll niður í 75 stig, í 17. sæti spillingarvísisins, sex sætum neðar en árið á undan og stendur töluvert að baki hinum Norðurlöndunum. Það er heldur ekki skrýtið að Drago Kos trúi því varla að velmegunarríki eins og Ísland hafi vanfjármagnað héraðssaksóknara og að honum finnist það vandræðalegt fyrir Ísland að stjórnvöld í Namibíu sé að draga vagninn í rannsókn Samherjamálsins, sem þó má segja að eigi rætur sínar á Íslandi. Það er ekkert skrýtið því að auðvitað á að ríkt land eins og Ísland að eiga burðuga, vel fjármagnaða og fullmannaða stofnun sem getur rannsakað efnahagsbrot og skattalagabrot innan ásættanlegs tíma. Það er fullkomlega eðlilegt að gera hreinlega ráð fyrir því að svo sé og vera svo hissa þegar í ljós kemur að svo er ekki.

En svo er ekki og það voru pólitískar ákvarðanir sem ollu því að svo er ekki. Þar má nefna ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar um að skera niður fjárveitingar til fyrirrennara sérstaks saksóknara árið 2013 um tæpar 800 millj. kr. Það var reyndar eitt af hans fyrstu verkum í því embætti. Af þessum sökum, vegna þess gríðarlega niðurskurðar sem þetta embætti hafði þá þegar gengið í gegnum, var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta 200 milljónum við, í viðbótarframlag til eftirlits og varna gegn peningaþvætti, í skattrannsóknir og skatteftirlit vegna Samherjamálsins bara dropi í hafið og ekki til þess fallið að hægt sé að rannsaka þessi mál með fullnægjandi hætti vegna þess að þessari upphæð var skipt á milli Skattsins, skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara til að efla rannsóknir og fjölgað rannsakendum. En við vitum það að áður en að Samherjamálið kom til sögunnar vantaði héraðssaksóknara starfsfólk og getu til að sinna þeim málum sem voru þar á borði áður en þetta stærsta efnahagsbrotamál Íslandssögunnar kom inn á borð til hans. Þannig að fjármögnunin er alls ekki næg og það liggur alveg ljóst fyrir. Sömuleiðis eftir að ríkisstjórnin ákvað að leggja niður skattrannsóknarstjóra í núverandi mynd og færa skattrannsóknir á alvarlegum skattalagabrotum yfir til héraðssaksóknara þá skortir hann lagalegar heimildir til þess að komast í sömu gagnagrunna og skattrannsóknarstjóri kemst í og getur þar af leiðandi ekki rannsakað mál með sama hætti og skattrannsóknarstjóri gat áður. Þetta hefur allt gert yfirvöldum erfiðara fyrir að klára þetta mál innan ásættanlegs tíma.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann sammála því að óhóflegur dráttur á rannsókn Samherjamálsins sé vandræðalegur fyrir Ísland á alþjóðavettvangi? Líta íslensk stjórnvöld málið nógu alvarlegum augum? Var fullnægjandi að setja 200 milljónir sameiginlega til skattyfirvalda til að bregðast við þessari stöðu?