Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

91. mál
[17:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir framsöguna með þessu máli um friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnorkuvopnum, sem ég er meðflutningsmaður á og held ég hafi raunar verið síðan ég settist á þing.

Mig langar að byrja á að taka undir lokaorð hv. þingmanns um að núna ættum við bara að klára þetta mál og festa það í lög, enda kom það skýrt og greinilega fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í dag að í raun sé búið að gera þetta með samþykkt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. En ég tel engu að síður að það eigi að búa um þetta enn betur, líkt og gert er hér með þessu lagafrumvarpi. Það er áhugavert að það sé verið að mæla fyrir þessu máli akkúrat í dag en það vill svo til að í dag eru 60 ár frá því að þriðju heimsstyrjöldinni var mögulega afstýrt þegar einn maður neitaði að hlýða fyrirskipun og skjóta kjarnorkusprengju. Það gerðist í Kúbudeilunni og hér var um rússneskan hermann að ræða. Þetta gerðist talsvert langt frá okkur og í öðru hafi en setur þessi mál engu að síður í ákveðið alheimslegt samhengi vegna þess að kafbáti var fyrirskipað að skjóta kjarnorkusprengju á Bandaríkin. Það skiptir máli í hinu alþjóðlega samhengi að friðlýsa Ísland og íslenska lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum því að við vitum það og þekkjum að kafbátaumferð í kringum landið er þó nokkur og hefur raunar verið um margra áratuga skeið.

Það er áhugavert að lesa skrif og greiningar Alberts Jónssonar, varnarmálasérfræðings, sem ég hef í gegnum tíðina alls ekki alltaf verið sammála. En núna upp á síðkastið hefur hann verið að fjalla um stöðu Íslands í hinu alþjóðlega samhengi, ekki síst í kjölfar þess að Rússar réðust inn í Úkraínu, og bendir á að hafið hér í kringum Ísland og á norðurslóðum sé hernaðarlega mikilvægt, bæði í hernaðarstefnu Rússa en ekki síður Bandaríkjamanna. Með aukinni umferð hernaðarlegra farartækja á norðurslóðum og þar með í hafinu í kringum Ísland þá skiptir þetta frumvarp máli. Einhverjir kynnu kannski að spyrja hvort þetta væri ekki orðið úrelt eða gamaldags. Nei, akkúrat ekki. Þetta er einmitt mál sem skiptir máli hér og nú í stöðu alþjóðamála dagsins í dag. Það skiptir máli að binda það alveg kirfilega í lög að lögsaga Íslands og Ísland séu friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og því ætla ég að binda vonir við að þetta mál fái góða umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd. Ég held að það væri mjög gagnlegt að fá til að mynda hæstv. utanríkisráðherra á fund nefndarinnar þar sem hún hefur áréttað að þetta sé partur í okkar þjóðaröryggisstefnu og við klárum þetta mál núna. Það er svo sannarlega brýnt, miðað við þá auknu hernaðarógn og auknu hernaðarlegu uppbyggingu og raunar þá auknu áherslu á þróun og endurnýjun kjarnorkuvopna og kjarnorkuvopnabúra landanna í kringum okkur. Ég nefni bara Rússland, Bandaríkin og Bretland sem eru náttúrlega í raun umhverfis okkur. Ég vona að nú verði þetta mál klárað og lögfest og að Ísland og lögsaga þess verði friðlýst með lögum gegn kjarnorkuvopnum.