153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd.

[15:39]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessum ræðustól í dag hef ég ekki verið að tala um eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sett í hendur mínar heldur hef ég lesið þá úrskurði sem hér er um að ræða og vitna til þeirra, svo það sé alveg á hreinu. Auðvitað er þetta mál óskaplega erfitt og það er erfitt að vita til þess að fólk hafi verið sent úr landi áður en mál þess var tekið fyrir hjá dómstólum. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Ég verð hins vegar að segja að ég vissi ekki að þetta væri að fara að gerast fyrr en að það gerðist og tel að við þurfum að vanda okkur alveg gríðarlega í þessum málum, bæði þegar kemur að brottflutningi — því við erum með kerfi sem er þannig að við tökum ekki á móti öllum, við vitum það — og sérstaklega þegar um fatlað fólk er að ræða. Þá umræðu þurfum við að sjálfsögðu að taka og það ætla ég að gera með lögreglunni.