153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

fæðingarþjónusta á landsbyggðinni.

[15:45]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svarið. Ég fagna því að slík nefnd sé að störfum því að þetta er gríðarleg áskorun, bæði í stóra samhenginu í heilbrigðiskerfinu og ekki síst hvað varðar mönnun á landsbyggðinni. Ég ætla að fá að nota þessar síðustu sekúndur til að segja frá því að ég veit um fjölskyldu sem á von á fjölgun kringum jólin. Þau þurfa að koma fimm til Reykjavíkur. Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði við húsnæði nema á sjúkrahóteli og þá í tveimur herbergjum yfir jólin. Mér finnst við þurfa að horfa á þetta í stærra samhengi. Þetta er ekki bara spurning um að bjarga lífi móður og barns heldur eru þetta miklu stærri atriði þar sem verður að taka einhverja heildarmynd. Ef ekki er hægt að veita þessa sérstöku þjónustu í heimabyggð verðum við alla vega að gera fjölskyldum kleift fjárhagslega og með sóma að sækja þessa þjónustu til stærri staðanna.