Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd.

[16:34]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp undir þessum lið. Ég held að mörg okkar séu slegin m.a. yfir meðferðinni á fötluðum manni sem var fluttur nauðugur á götuna í Grikklandi tveimur vikum áður en taka átti málið hans fyrir í héraðsdómi. Ég vil nota tækifærið hér til að vekja athygli þingheims á því að dómarinn í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur beint því sérstaklega til ríkislögmanns að kanna fyrir næsta þinghald, á morgun, hvort vilji sé til þess af hálfu íslenska ríkisins, af hálfu stjórnvalda að gera ráðstafanir til þess að tryggja að maðurinn, sem nú er á götunni í Grikklandi, geti komið fyrir dóm og gefið skýrslu milliliðalaust. Þetta er það sem dómarinn í málinu er að kalla eftir, ég vil vekja athygli þingheims á því, og eflaust er þetta talið mikilvægt svo að rétturinn til aðgangs að dómstólum sé að fullu virtur í þessu tiltekna máli og málsmeðferðin gangi eðlilega fyrir sig. Á morgun munum við fá að vita hver afstaða íslenska ríkisins er í þessum efnum.