Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

lyfsala utan apóteka.

174. mál
[17:44]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir frumkvæðið og hæstv. ráðherra fyrir hans innlegg. Okkur sem styðjum frumvarp hv. þm. Berglindar Óskar Guðmundsdóttur um breytingu á lyfjalögum þykir sjálfsagt að Íslendingar sitji við sama borð og vinir okkar á Norðurlöndunum þegar kemur að þessum málum og reyndar að fleiri málum sem varða íslenska neytendur. Þessi lagabreyting sem hv. þm. Berglind Ósk hefur talað fyrir myndi færa fyrirkomulag lyfsölu einu skrefi nær því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum sem við berum okkur svo gjarnan saman við. Það er mikilvægt að við fáum skýr sjónarmið og svör frá hæstv. ráðherra varðandi það hvort og þá hvaða séríslensku aðstæður séu uppi sem réttlæta þessa verri stöðu sem við Íslendingar erum í þegar kemur að kaupum á lausasölulyfjum með tilheyrandi áhrifum á verð og þjónustu við okkur.