153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

álag á innviði vegna hælisleitenda.

[10:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins, og koma fyrst með smá samhengi fyrir okkur inn í spurninguna. Á hverjum tíma hérna á Íslandi eru tugþúsundir útlendinga á landinu. Þeir koma hingað á grundvelli EES-samningsins, þeir halda uppi alls konar atvinnugreinum, má segja; hjálpa okkur að byggja húsin okkar, vegina okkar og að sjálfsögðu nýtur þetta fólk réttinda og á þá líka rétt á þjónustu hér. Af því skapast eitthvert álag á innviði sem okkur finnst þó í lagi vegna þess að ávinningurinn af þessu er auðvitað mikill. Við erum síðan auðvitað líka að reyna að fá til landsins sérfræðinga utan EES og er talað um að þar þurfi að fá talsverðan fjölda líka, auðvelda þessum hópi að koma til landsins. Síðan þegar kemur að umræðu um hælisleitendur þá erum við í þeirri stöðu að 80% allra hælisleitenda koma frá Úkraínu og Venesúela. Íslensk stjórnvöld hafa boðið íslenskan faðm opinn gagnvart þeim sem koma frá Úkraínu og kærunefnd útlendingamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fólkið frá Venesúela eigi rétt á aðstoð og vernd. Þá eru eftir örfá hundruð sem ekki falla inn í þennan hóp sem ég var að lýsa, sem telur tugþúsund á hverjum tíma í landinu. Samt er það þannig að íslensk stjórnvöld virðast sífellt vera að tala um að þessi tiltekni hópur, þessi fámenni hópur sem kæmist fyrir í Silfurbergi í Hörpu, sé að skapa þannig álag á kerfin okkar, á innviði okkar að við þurfum að grípa til harðra aðgerða til að koma þessu fólki úr landi helst sem fyrst mörgu hverju.

Mig langar að spyrja hæstv. innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins í ljósi þessa samhengis: Eru það ekki hrein öfugmæli að örfá hundruð skuli skapa þetta viðbótarálag á kerfin okkar þegar við ræðum ekki um hin tugþúsundin sem við bjóðum velkomin og sjáum að geta gert samfélaginu gagn?