153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

álag á innviði vegna hælisleitenda.

[11:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það sem ég er að reyna að benda á er að íslenskt samfélag getur auðvitað haft sama gagn af þeim sem koma inn í gegnum verndarkerfið og þeim sem koma inn með öðrum leiðum. Það er engin ástæða fyrir okkur til að álykta sem svo eða tala með þeim hætti að þegar þessi tiltekni fjöldi er annars vegar þá verði það eitthvert annað ferli hjá þessu fólki inn í samfélagið en öllum hinum. Auðvitað er það þannig að fólk vill koma hingað, njóta verndar, geta komið börnunum sínum í skóla og séð fyrir sér og sínum með atvinnu og mig langar þá að spyrja: Er eitthvað sem gerir það að verkum að við eigum að hugsa öðruvísi um þennan hóp þegar að því kemur? Er eitthvað sem bendir til þess að þessi örfáu hundruð sem ég var að vísa til, sem koma í gegnum hælisleitendakerfið og vissulega er rétt að það er verndarkerfi, en það er þó a.m.k. einhver afleiðing af verndarkerfinu að þetta fólk kemur hingað og vill vinna og búa til verðmæti — er einhver ástæða til að ætla að þessi hópur verði frekar einhver baggi á samfélaginu eða búi til einhvers konar viðbótarálag (Forseti hringir.) eða að það sé verra að fá þetta fólk en allar hinar tugþúsundirnar sem hingað koma á hverjum tíma, (Forseti hringir.) jafnvel þótt fólkið komi hingað inn í landið á mismunandi forsendum? (Forseti hringir.) Það er kannski það sem ég er svolítið að reyna að fá fram hjá hæstv. ráðherra.