153. löggjafarþing — 30. fundur,  14. nóv. 2022.

traust á söluferli ríkiseigna.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hún var ansi marglaga en ég vil segja það hér í fyrsta lagi: Hvaða spurningum er ekki svarað? Hv. þingmaður nefndi nokkrar. Sumar þeirra eru til skoðunar nú þegar hjá Seðlabankanum og þá vitna ég sérstaklega í það sem lýtur að hlutverki söluráðgjafanna, samskiptum við Íslandsbanka sjálfan í þessari sölu og annað slíkt, þannig að við eigum eftir að fá frekari upplýsingar um það.

Ég vil líka segja að það sem hv. þingmaður segir varðandi upplýsingagjöf, um það er ágætlega fjallað hér, um upplýsingagjöf um það ferli sem valið var. Ég vil bara halda því til haga og rifja upp að þessi aðferðafræði, tilboðsaðferðafræðin, er það sem fagstofnunin, Bankasýsla ríkisins, leggur til við fjármálaráðherra, leggur til við ráðherranefnd um efnahagsmál að sé besta leiðin að fara. Það er vitnað í erlend dæmi. Við þekkjum erlend dæmi, t.d. nýlegt dæmi frá Írlandi þar sem þessari aðferðafræði var beitt við sölu á hlut í ríkisbanka. Þannig að þetta er ráðgjöf fagstofnunar, þetta er kynnt, ekki bara með glærupakka fyrir þingnefndum heldur með greinargerð hæstv. ráðherra, fyrir utan að þingnefndirnar fá málið auðvitað og getað kallað eftir upplýsingum.

Ég held að þessi ákvörðun um að selja hlut og fylgja ráðgjöf Bankasýslunnar um hvaða aðferðafræði skyldi fylgt sé í sjálfu sér hafin yfir allan vafa. Það má hins vegar eftir á spyrja hvernig nákvæmlega Bankasýslan, þessari ágætu stofnun okkar sem starfar í armslengd frá ríkisstjórn og ráðherrum, höndlaði það að nýta svo þessa aðferðafræði sem hún lagði sjálf til og á það er bent hér að á því eru ýmsir annmarkar.