Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

virðisaukaskattur.

51. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Jakob Frímann Magnússon) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að gæta tungu minnar og mæla á þeirri ilhýru íslensku sem forseta er hugnanleg. Það mál sem ég mæli nú fyrir öðru sinni, sem var annað tveggja mála sem sá sem hér stendur lagði fram, nýbakaður þingmaður á síðasta ári, er tengt því að hér er löggjöf sem hvetur til orkuskipta í bílaflota okkar og hefur borið árangur. Við höfum fjölgað, mjög myndarlega, rafmagnsbílum og vistvænum bílum á skömmum tíma.

Í fyrra voru samþykkt lög um að slíkt hið sama skyldi gilda um flugvélar. Eins og ég benti á fyrr í dag þá flaug hæstv. forsætisráðherra í fyrsta sinn með rafmagnsflugvélar fyrr á þessu ári og það sem hér er lagt til er að sambærilegir hvatar séu samþykktir, þ. e. niðurfelling á virðisaukaskatti af fleyjum, af skipum, ferjum og flutninga- eða farþegaskipum, með þeim hætti að við hvetjum til orkuskipta á þeim vettvangi líka. Það þarf ekki neina bið eftir rafknúnum eða vetnisknúnum ferjum. Það er í boði í dag. Einhverjar frændþjóðir okkar framleiða slík fley nú þegar og ég veit um fólk sem bíður eftir að þessi breyting verði til þess að geta tekið þátt í að sigla án kolefnisspors.

Eitt það ljótasta sem ber fyrir augu okkar sem hér búum eru skemmtiferðaskipin sem koma hingað spúandi svörtum reyk inn eftir blessuðum sundunum og inn að Skarfabryggjunni. Það leiðinlegasta sem ég hef upplifað á síðari árum er sigling frá Napólí út í eyju þar sem siglingin hófst með því að maður beið á hafnarbakkanum og ferjur sem sigldu í burtu af nálægum eyjum kæfðu mann nánast í svörtum viðbjóðslegum reyk. Ég er hreinlega að leggja til að við stígum fram í orkuskiptunum, ekki bara í lofti og á landi heldur líka á sjó.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð — það er góð saga til næsta bæjar í allri umræðunni um hvernig menn eiga að standa sig og koma til móts við hinar ógnvænlegu loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Íslendingar yrðu að líkindum fyrstir til að vera með slíkar hvataaðgerðir á öllum þremur sviðum samgangna. Þess vegna vil ég óska eftir víðtækum stuðningi þings og þjóðar við þetta sjálfsagða mál og að því verði vísað til nefndar og afgreiðslu svo fljótt sem verða má. Læt ég þá máli mínu lokið hér í dag og þakka þeim sem hlýddu.