Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

57. mál
[14:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um tannheilbrigðisþjónustu fyrir börn, aldraða og öryrkja. Að þessu frumvarpi stendur allur þingflokkur Flokks fólksins og við sjáum nú einskæran áhuga á þingi fyrir þessu frumvarpi því að við erum hérna þrjú í salnum, öll frá Flokki fólksins. Það sýnir áhuga annarra þingflokka á því að standa við og sjá til þess að tannheilbrigðisþjónusta sé í góðu lagi hjá börnum, öldruðum og öryrkjum.

Við vorum fyrir hádegi að skrifa upp á sáttmála sem talsmenn barna á þingi. 20. nóvember síðastliðinn var réttindadagur barna og það er eiginlega sorglegt að maður skuli svo standa hérna nokkrum klukkutímum seinna og reyna að berjast fyrir því að tannheilbrigðisþjónusta fyrir börn sé gjaldfrjáls. Að það sé ekki sjálfsagður hlutur ef tannheilsan er í einhverju ólagi, að það sé svo að þá geti viðkomandi barn ekki leitað sér hjálpar án þess að eiga það á hættu að foreldrarnir hafi ekki efni á að borga.

Ég segi fyrir mitt leyti: Við hljótum að eiga vera komin á þann stað núna árið 2022 og með öllum þeim kosningaloforðum flokka undanfarna áratugi að það sé bara sjálfsagður hlutur að þetta sé inni í heilbrigðisþjónustunni, að við þurfum að vera að berjast fyrir því að aldraða fólkið okkar og öryrkjar fái ókeypis tannlæknaþjónustu, sem er of stór hópur sem lifir í fátækt, nær ekki endum saman og má þakka fyrir að eiga fyrir mat í fyrstu viku hvers mánaðar.

Við erum eiginlega á furðulegum stað; að við skulum vera að hólfa niður og segja: Heyrðu, bíddu, tannheilbrigðisþjónusta, nei, hún þarf ekkert að vera fullkomlega gjaldfrjáls. Það er bara allt í lagi að láta fólk borga fyrir hana þannig að þeir ríkari geti nýtt sér hana en ekki þeir sem eru efnaminni. En það sem er fáránlegast við þetta, og það vita það allir sem hafa fengið tannpínu eða þurft einhverjar aðgerðir á tönnum, að þetta er grafalvarlegt heilsufarslegt vandamál. Og það er ekki bara að það hafi áhrif á tannheilsu viðkomandi heldur líka á þjóðfélagið í heild sinni vegna þess að ef ekkert að gert getur þetta valdið ýmsum erfiðleikum og þá verður alltaf dýrara og dýrara að reyna að sjá til þess að viðkomandi geti leitað sér þjónustu. Þar af leiðandi verða alltaf minni líkur hjá þessum hópi, öldruðum, öryrkjum og barnafjölskyldum, að brúa bilið til að geta reddað því og séð til þess að viðkomandi komist í tannlækningar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hjá einstaklingum, öryrkjum og öðrum, sem reyna að tóra á rúmum 200.000 kr. útborguðum, að það er enginn afgangur, það segir sig sjálft. Þar af leiðandi er eiginlega óskiljanlegt að við skulum ekki vera með fría heilbrigðisþjónustu.

Mér hefur verið bent á, sem maður veit, að t.d. í Danmörku labbar þú inn til heimilislæknis eða á heilsugæslu og borgar ekkert, þú færð þína þjónustu, hún er inni í heilbrigðiskerfinu. En hér á Íslandi hefur verið einhvern veginn verið búið til tvöfalt kerfi þar sem við erum að skilja ákveðna hópa eftir og segja: Nei, þið fáið ekki þjónustuna og þið eigið bara að vera hornreka. Við ætlum að sjá til þess að þið hafið það lága framfærslu að þið hafið ekki efni á að fá tannheilbrigðisþjónustu.

Það er annað í þessu líka sem menn búa við sem er alveg stórfurðulegt og það er geðheilbrigðisþjónustan. Hún er líka að stórum hluta fyrir utan kerfið. Maður getur ekki séð hvernig í ósköpunum á að vera hægt að rökstyðja það að hafa tannheilbrigði og geðheilbrigði fyrir utan heilbrigðisþjónustuna eða yfirleitt að vera með kerfi sem mismunar svona gróflega á sama tíma eftir efnahag. Það segir sig sjálft að þeir sem eru með rúmar 200.000 kr. útborgaðar fara ekki til geðlæknis þar sem tíminn kostar 15.000–20.000 kr. og það er örugglega ekki í forgangi að fara til tannlæknis. Við gerum okkur alveg grein fyrir því á Íslandi hvað það kostar. Það segir sig sjálft að það verður gífurlega erfitt fyrir einstaklinga sem eru á lægstu lífeyrislaunum og jafnvel þá sem eru á lægstu launum í þjóðfélaginu, að geta veitt börnum sínum þessa þjónustu. Og þetta með að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og þakka fyrir vel unnin störf — að það fólk skuli líka geta lent í þeirri stöðu að geta ekki leitað sér tannlæknisþjónustu er ömurlegt. Síðan erum við með öryrkjana sem hafa lítið á milli handanna og einhvern veginn virðist enginn vilji vera til þess að gera eitt eða neitt og breyta þessu kerfi. Yfirleitt þegar maður bendir á að þetta þurfi að breytast, þá kemur alltaf sami grátkórinn: Hvar eigum við að fá peninginn fyrir þessu? Það er alltaf viðhorfið ef það á að gera eitthvað fyrir þá verst settu, aldraðra, öryrkja og börn í fátækt þá heyrist alltaf: Hvar á að fá peninginn?

Þetta viðhorf kemur aldrei fram þegar á að hampa þeim sem eru efnameiri, en við í Flokki fólksins höfum leyst það vandamál. Við höfum bent á að það er hægt að eyrnamerkja í þetta ákveðna fjármuni, þ.e. að skattleggja eingreiðslur í lífeyrissjóði. Við náum þar tugum milljarða, 70–80 milljörðum. Með þeim peningum væri hægt að koma fólki úr fátækt, heilbrigðiskerfinu í lag, tannheilbrigðisþjónustu inn í kerfið, geðheilbrigðisþjónustu í kerfið, en það yrði að eyrnamerkja þessa peninga í það.

Annað sem við myndum græða á þessu og þjóðfélagið í heild sinni er það að þarna erum við að taka út pening, skattpening sem annars væri að bara á markaði, og að gambla með hann á markaði er áhætta. Við vitum það og þekkjum það frá hruninu. Uppreiknað í dag eru það einhverjir milljarðar króna sem töpuðust þar sem hefði svo sannarlega ekki veitt af að fá. Eins og hefur komið fram hérna frá hv. þm. Ingu Sæland, sem er flutningsmaður þessa frumvarps, þá er eins og það sé enginn vilji til þess að taka utan um þessa hópa, reyna að koma þessum hlutum í lag. Við sjáum það hérna í salnum. Nú hefur þingmönnum fjölgað hér um einn og sá er úr Flokki fólksins, en það er ekki einn einasti þingmaður frá nokkrum öðrum flokki hérna í salnum að ræða þessi mál. Það sýnir algjört áhugaleysi, segi ég, vegna þess að þarna erum við með mjög gott og þarft mál sem er tannheilbrigðisþjónusta fyrir börn, aldraða og öryrkja.

Ég get ekki séð á þeim málefnum sem við höfum verið að ræða hérna í þinginu annað en að þetta sé eitt af því mikilvæga. En það virðist bara vera hjá Flokki fólksins, ekki öðrum, og er það eiginlega sorglegt til þess að vita. En við munum berjast áfram og reyna að koma því til skila og vonandi holar dropinn steininn þannig að aðrir flokkar og sérstaklega ríkisstjórnin fari nú aðeins að bretta upp ermarnar og taka til í þessum málum. En það eru að verða nokkur ár síðan það var tilkynnt að þeir verst settu gætu ekki beðið lengur. Þeir bíða enn og eru því miður í verri stöðu en þeir voru í þá að mörgu leyti.