Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

57. mál
[15:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (tannheilbrigðisþjónusta fyrir börn, aldraða og öryrkja).

Eins og segir í 1. gr. frumvarpsins þurfa sjúkratryggingar að ná til allra tannlækninga og tannréttinga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára. Þá eiga sjúkratryggingar að taka til heilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um vegna meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

Þá segir í b-lið greinarinnar, með leyfi forseta: „Jafnframt skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga aldraðra og öryrkja sem hafa engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga sem og aðrar opinberar greiðslur sem tengjast örorku- og ellilífeyrisréttindum.“

Hér er raunverulega verið að leggja til frumvarp sem er jafn sjálfsagt og hægt er í norræna velferðarsamfélaginu. Í greinargerðinni segir:

„Í lögum um sjúkratryggingar er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna. Þá taka sjúkratryggingar einnig til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga í ákveðnum tilvikum, þ.e. vegna afleiðinga alvarlegra meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.“

Hér er verið að takmarka þessi réttindi, greiðsluþátttöku ríkisins í tannheilbrigðisþjónustu við það sem er nauðsynlegt. Ég tel það mjög mikilvægt sem kemur fram í greinargerðinni, en þar segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að fella út orðin „nauðsynlegra“ og „alvarlegra“ úr 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar. Með þeirri breytingu er ekki lengur þörf á að meta hvort meðfæddur galli, afleiðing slyss eða sjúkdóms sé nógu alvarleg né hvort meðferð í hverju tilviki fyrir sig sé nauðsynleg, heldur munu sjúkratryggingar taka til tannlækninga og tannréttinga vegna þeirra.“

Þetta er svo sjálfsagt mál að það þarf ekki að meta í hverju tilviki hvort tannheilbrigðisþjónusta sé nauðsynleg eða hvort meðfæddur galli sé alvarlegur. Hérna er ríkið að setja lög um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra og öryrkja og það er síðan gert í reglugerð þannig að ráðherra hafi heimild til að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga með reglugerð. Það er yfirlýsing, falin með lögum þar sem eitt orð er sett inn, „nauðsynlegra“ svo kemur allt hitt er í reglugerð, þar sem verið er að kveða raunverulega beinlínis á um greiðsluþátttöku almennings, aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára til að greiða kostnaðinn og það er mjög gott dæmi.

Ég vil vekja athygli á dæmi sem er tekið fram í greinargerðinni. Veittur er styrkur að fjárhæð 150.000 kr. ef föst tæki eru sett í báða góma en almennt er kostnaður slíkra tannréttinga talsvert umfram þá fjárhæð, öllu jafnan ekki undir 700.000 kr. Svo mikil fjárútlát hafa veruleg áhrif á fjárhag fátækra fjölskyldna og það er rétt sem kemur fram í greinargerðinni að samfélaginu ber skylda til að tryggja að öll börn fái heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa án tillits til efnahags.

Þetta er það sem frumvarpið fjallar um, að börn þurfi ekki að búa við verri tannheilsu af því þau koma úr fátækum fjölskyldum. Stór hópur fullorðinna býr við slæma tannheilsu vegna þess að kostnaðurinn er mikill og tekjurnar eru of lágar. Sjúkratryggingar greiða hluta kostnaðarins og öryrkjar og eldri borgarar sem hafa ekki aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga og tengdar greiðslur verða að fá gjaldfrjálsa tannheilbrigðisþjónustu án þess að verið sé að meta hvort tannheilbrigðisþjónusta sé nauðsynleg og hvort tannviðgerðir, tannheilsa eða meðfæddur galli sé það alvarlegur að ríkið hlaupi undir bagga. Það er ekki hægt að hafa þannig mat, það kallar á mismunun á fólki og að gera þetta ekki að réttindum er eins konar fátækrahjálp, þá þarf að meta það hverju sinni hvort ríkið ætli að hlaupa undir bagga varðandi tannheilbrigðisþjónustu þessa hóps sem er verst settur í íslensku samfélagi. Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er kominn hér og ég efast ekki um að hann er í hjarta sínu algerlega sammála okkur um að það eigi ekki að mismuna fólki eftir efnahag og aldri þegar kemur að tannheilbrigðisþjónustu.