Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

432. mál
[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Það sem við erum að ræða um hér er að gefa okkur allt næsta ár til að ákveða hvað tekur við á árinu 2024, þannig að við erum ekki að gera ráð fyrir miklum tekjum umfram það sem leiðir af hækkun vörugjaldsins. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er skynsamlegt að vera áfram með ívilnanir og ég sé það fyrir mér. Ég sé fyrir mér að ef við horfum t.d. á rekstrarkostnað þá sé skynsamlegt að vera með kolefnisgjöldin áfram á eldsneytinu. Við gætum fellt niður bensín- og olíugjaldið og fært það allt saman inn í kílómetragjald en á dælunni myndi falla til kolefnisgjald sem þeir sem þurftu að treysta á þá orkugjafa þyrftu að greiða áfram. Við getum stillt það eitthvað af miðað við það sem mögulegt er og skynsamlegt, innan skynsemismarka, til að halda áfram í orkuskiptum. Það er hægt að vera með hærra bifreiðagjald vegna mengandi bíla umfram hina.

Stærsta spurningin í þessu er kannski sú hvaða vörugjöld við ættum að vera að taka við innflutning í framtíðinni af hinum ólíku bílategundum og við hvað ætti að miða í tilviki rafmagnsbílanna. En mér hugnast almennt best að hafa einfalt kerfi og vera með eitthvað minni neyslustýringu við innflutninginn en að gjaldakerfið vegna notkunar sé þá kannski frekar nýtt. Sá sem notar mengandi bíl eigi t.d. að borga töluvert mikið meira en sá sem notar mengandi bíl lítið sem ekki neitt.