Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

61. mál
[17:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða, sem er lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það má líta á þennan samning sem eins konar mannréttindaskrá fatlaðs fólks í samfélagi þjóðanna og í samfélögum þeirra ríkja sem hafa staðfesta hann og undirritað. Ísland undirritaði samninginn strax á upphafsdegi hans, 30. mars 2007, og eins og kom fram í máli framsögumanns, Ingu Sæland, þá er það vissulega skuldbundið að þjóðarétti. En það er alveg grundvallaratriði að samningurinn hafi gildi hér innan lands og hann hafi lagalegt gildi svo fatlaðir einstaklingar geti fengið notið þeirrar verndar sem ákvæði hans kveða á um. Það er ekki nóg að fara út í heim og undirrita samning og taka þátt í samningagerðinni og samþykkja úti í heimi og skuldbinda sig að þjóðarétti, réttindi þurfa að koma inn í landsrétt og þá er grundvallaratriði að lögfesta samninginn. Annað er ekki tekið gilt.

Það er rétt að vekja athygli á því og ítreka það að árið 2019 samþykkti Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp þar um eigi síðar en hvenær? 13. desember 2020. Við erum núna að taka ómakið af ríkisstjórninni og leggja fram frumvarp um lögfestingu þessa samnings núna í nóvember. Nú er kominn miður nóvember 2022. Það eru bráðum tvö ár. Tíminn líður hratt. Þann 13. desember 2022 verða komin tvö ár frá því að Alþingi samþykkti tillögu um að fela ríkisstjórninni að gera það fyrir 13. desember 2020. Við ættum að geta gert það núna á tveggja ára afmæli þessarar samþykktar Alþingis.

Í kjölfarið var ákveðið að þýða samninginn og ný þýðing var lögð fram í mars 2021, eða í fyrra, og samþykkt í maí í fyrra. Nú stendur aðeins eftir að lögfesta samninginn og það er það sem við erum að leggja til. Um það snýst þetta mál hér. Vissulega er algjört hneyksli að við skulum ekki vera búin að lögfesta hann þegar flestar aðrar þjóðir heimsins, örugglega flestar aðrar þjóðir Evrópu, ég tala nú ekki um Norðurlöndin, virðast þegar hafa gert það, en við viljum ekki gera það út af fjárskorti eða við viljum ekki setja nægan pening í þennan málaflokk sem eru bara hrein og bein mannréttindi, eins og kemur fram í greinargerðinni. Lögfesting þessa samnings er mannréttindamál frekar en velferðarmál. Ég hef alltaf litið svo á að velferðarmál væru mannréttindamál, svo það liggi fyrir. En ég vil bara ítreka það að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við lögfestum hann núna fyrir jól og þá verði þessi réttindi komin inn í lög, landslög, en að Ísland sé ekki bara skuldbundið að þjóðarétti þegar kemur að þessum sjálfsögðu mannréttindum.

Ég sé ekki ástæðu til að flytja langt mál um þessa lögfestingu en tek undir orð hv. þm. Ingu Sæland sem sagði í framsöguræðu sinni að það væri ekki eftir neinu að bíða og við yrðum að gera þetta sem allra fyrst og tryggja þá réttarvernd sem fatlað fólk í landinu á skilið. Við erum eitt ríkasta samfélag heims. Við erum í sjötta sæti hjá OECD, Efnahags og framfarastofnuninni, sem er klúbbur ríkra þjóða, og að við skulum ekki hafa séð okkur fært vegna fjárskorts að lögfesta hann fyrir löngu síðan er bara algerlega óásættanlegt. Það sýnir forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Það er röng forgangsröðun að setja það fyrir sig að vilja ekki lögfesta hann vegna þess að það kosti pening. Þetta eru sjálfsögð mannréttindi og það eiga allir þegnar landsins rétt á þeim mannréttindum, fatlaðir sem aðrir.