Bráðabirgðaútgáfa.
153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

eftirlitsheimildir þingnefnda.

[10:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í framhaldi af umræðu sem fór fram undir þessum lið í gær vekja athygli á úrskurði sem hæstv. forseti Alþingis kvað upp þann 10. júní 2022 þar sem því var hafnað að efnahags- og viðskiptanefnd gæti boðað þá þrjá ráðherra sem eiga sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál á fund til að fjalla um aðgerðir í þágu tekjulægri heimila vegna hækkandi verðbólgu og vaxta og um hækkun bankaskatts og hvalrekaskatts á útgerðarfyrirtæki. Það var afstaða okkar í minni hlutanum, sem kölluðum eftir þessum fundi, að yfirlýsingar hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, um að tiltekinna aðgerða væri þörf og væru jafnvel í farvatninu, hlytu að teljast opinbert málefni sem væri eðlilegt að ráðherrar í ráðherranefndinni kæmu og svöruðu fyrir, enda þyrfti efnahags- og viðskiptanefnd að hafa yfirsýn yfir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hverju sinni. En þeirri ósk var hafnað. Hér afhjúpast kannski enn betur hvað þessi þröngi skilningur nefndarformanna og hæstv. forseta á eftirlitsheimildum þingnefndanna er varhugaverður þegar því er haldið fram í fúlustu alvöru að það megi ekki kalla hæstv. forsætisráðherra á fund fjárlaganefndar til að fjalla um brostnar forsendur (Forseti hringir.) fjárlaga þeirrar ríkisstjórnar sem hún er í forsvari fyrir, brostnar forsendur vegna óvissu um stefnumörkun þegar kemur að sölu á banka. (Forseti hringir.) Ég vil bara hvetja hæstv. forseta til að endurskoða þessa þröngu túlkun á eftirlitsheimildum þingnefnda.