153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

málefni hælisleitenda.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra og raunar hæstv. fjármálaráðherra hafa viðurkennt er ástand hælisleitendamála á Íslandi orðið stjórnlaust. En hver hafa viðbrögðin verið? Fram að þessu hefur ríkisstjórnin bætt í vandann. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra tilkynnt um áform sín, og að því er virðist hæstv. félagsmálaráðherra, um að endurskilgreina vandann, að endurskíra hælisleitendur sem ódýrt, erlent vinnuafl. Þetta mun ekki leysa nokkurn skapaðan hlut. Þetta mun auka mjög á þann vanda sem stjórnvöld eiga við að etja á meðan ekki hefur tekist að ná tökum á þeim mikla straumi hælisleitenda sem leitar til Íslands vegna þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér fram að þessu.

Þá skipar hæstv. forsætisráðherra sérstakan vinnuhóp til að fjalla um leiðir til að rýmka ákvæði laga er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku. Vinnumarkaðsmálin voru og hafa í gegnum tíðina verið erfiðasta málið við EES-samninginn en þar voru menn þó sammála um að af því að menn sæju fyrir sér eitt efnahagssvæði og einn vinnumarkað, sem samanstæði af löndum með sambærileg velferðarkerfi og sambærilegar reglur, væri það reynandi og hefur það einmitt gengið eftir á þeim forsendum. En hér er um grundvallarstefnubreytingu, eða a.m.k. vísbendingu um grundvallarstefnubreytingu, að ræða sem gengur þvert á það sem hin Norðurlöndin hafa verið að gera og líka hin EES-löndin.

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir þessum mikla vanda sem henni hefur ekki tekist að taka á með nokkrum hætti og forsætisráðherra hyggst endurskilgreina vandann og auka hann þar með. Er hæstv. fjármálaráðherra þátttakandi í þessu ferli? Samþykkti hann að farið yrði í þessi viðbrögð við ástandinu sem ríkisstjórnin hefur ekki getað brugðist við til þessa?