153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

málefni hælisleitenda.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé allt of mikið sagt að segja að ástandið í hælisleitendamálum á Íslandi sé orðið stjórnlaust. Ef við horfum t.d. bara á fjölda Úkraínumanna sem sækja til Íslands þá eru þeir hlutfallslega færri á Íslandi en á Norðurlöndunum. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að skaði hefur verið af því að þingið hafi ekki afgreitt margítrekað endurflutt mál dómsmálaráðherra á undanförnum árum til þess að við gætum betur samræmt löggjöf okkar í hælisleitendamálum því sem á við í nágrannalöndunum.

Varðandi nýskipaðan starfshóp þá tel ég að það sé löngu tímabært að taka það til endurskoðunar hvernig við getum laðað til landsins sérfræðinga sem koma utan EES-svæðisins. Við höfum öll tól og tæki í höndunum til að stýra því nákvæmlega með hvaða hætti við myndum opna íslenskan vinnumarkað fyrir löndum utan EES-svæðisins. Þær miklu áhyggjur sem voru við inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið af því að hingað myndi flytja of margt fólk í leit að vinnu hafa reynst algjörlega innstæðulausar. Reyndar hefur það verið reynslan að hinn opni, sveigjanlegi vinnumarkaður á Íslandi hefur verið algjört bjargræði fyrir okkur þegar á hefur þurft að halda. Þegar hér hefur verið mikill vöxtur og viðgangur í hagkerfinu hefur vinnuafl flust til landsins, eins og t.d. hefur átt við á undanförnum árum út af ferðaþjónustu, og þegar kreppir að þá flytur margt af þessu fólki aftur frá landinu sem sýnir gríðarlega mikinn hreyfanleika vinnuaflsins á Íslandi, sem er ekkert nema jákvætt. Við upplifum t.d. ekki gríðarlegan vöxt í atvinnuleysi þegar kreppir að hjá okkur eins og sumir hafa haft áhyggjur af. Því tel ég að þessi nýi starfshópur sem verið er að koma á fót sé merki um að við séum að stíga ný skref í átt að þroskaðri og þróaðri vinnumarkaði á Íslandi.