153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

leiðir í orkuskiptum.

[10:53]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Stærsta áskorun íslenskra stjórnmála er að mínu mati að koma hagkerfi okkar á heilbrigðan grunn sem efla mætti traust á innviðum Íslands, afurðum, alþjóðaviðskiptum, stækkandi efnahag og pólitískum stöðugleika. Orkuskipti eru þegar hafin. Olían eða svarta gullið er senn á útleið sem orkugjafi. Græn orka, okkar græna gull, mun sem orkugjafi senn leysa svarta gullið af hólmi. Af því græna eigum við sem betur fer gnótt og sú staða ein og sér færir okkur aukin færi til sóknar í betra og heilbrigðara efnahags- og myntumhverfi.

Hugum nú að fé voru með óhefðbundnum hætti og lítum sem snöggvast á okkar fjölþætta og margháttaða fé, okkar glæsta þjóðarauð sem litríkan splunkunýjan þjóðarsauð — ég kynni hér ykkur þjóðarsauð. [Hv. þingmaður dregur upp mynd af litríkum sauð.] Þegar horft er til svo litríks þjóðarsauðar verður ekki hjá því komist að okkar eigin sjálfstrausti sem þjóðar vaxi enn fiskur um hrygg, vaxtarfærin blasa nefnilega alls staðar við. Áratugastríð við vindmyllur verðbólgu, vaxta og launa er vonlaust stríð ef ekki má ráðast að rótum vandans heldur einungis afleiðingum hans. Sauðurinn stendur á fjórum meginstoðum, gulum, rauðum grænum og bláum. Í stað gullfótar sjáum við gulfót hugverka og skapandi greina, grænfót grænnar orku og auðlinda jarðar, bláfót sjávarútvegsins og rauðfót fót ferðaþjónustu og fleiri þátta.

Íslendingar eru ekki á leið í Evrópusambandið en við getum ekki litið fram hjá mikilvægi þess að verðgildi okkar íslenska fjár verði framvegis speglað í mynt sem nýtur viðurkenningar og trausts í alþjóðaviðskiptum, alvörustöðugleika og hagfelldara samkeppnisumhverfis. Aðalatriðið er að við viljum að almenningur á Íslandi, einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki, fái notið þeirra mannréttinda að geta treyst því að tekin lán og lánskostnaður sem um er samið í upphafi standist. Við erum rík þjóð. Allar aðrar ríkar þjóðir hafa fyrir löngu leyst sín mynt- og gengismál til frambúðar. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Eigum við ekki að sameinast um að fara að þeirra fordæmi og hefja saman, í fylgd þjóðarsauðarins okkar, nýja vegferð í markvissri leit að farsælli og varanlegri lausn í þessum efnum?