153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

vistun barna í fangelsi.

[11:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að við skulum vera að horfa fram á þann raunveruleika í íslensku samfélagi að afbrot fari mjög vaxandi meðal ungra karlmanna sérstaklega og við sjáum þátttöku þeirra til að mynda í þeim athöfnum sem við höfum verið að rifja upp á undanförnum dögum. Við því verður að bregðast með margvíslegum hætti. Hér er í mörgum tilfellum um óharðnaða unglinga að ræða þótt þeir taki þátt í afbrotum sem einkennast af mikilli hörku og eru dregin áfram af einhverjum hvötum sem hafa leitt af sér þessa alvarlegu atburði. Það fylgir því auðvitað þegar við glímum við slíkt sem viðkemur löggæslu og rannsóknum mála að vegna rannsóknarhagsmuna, til að ná utan um málið, getur þurft að einangra fólk í ákveðinn tíma. Ég fullyrði það að lögregla, löggæsla og fangelsismálayfirvöld beita sér fyrir því að það sé gert með eins mildum hætti og hægt er og tillit tekið til ungs aldurs. Á síðustu misserum höfum við fangelsismálastjóri átt samtal um þetta þar sem við höfum einmitt verið að ræða þá nálgun sem þarf að vera í vinnu með þessa ungu afbrotamenn í framhaldi af þessari reynslu. Við sjáum mikil tækifæri í því að grípa til þeirra ráðstafana að bæði félagsþjónusta og sálfræðiþjónusta verði í boði, einhver meðferðarúrræði og hjálp til þeirra sem hana vilja þiggja. Við teljum augljóst að hægt sé að vinna með mörgu af þessu fólki og leiða það til betri vegar.