153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

hækkun stýrivaxta.

[11:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Í gær tilkynnti Seðlabankinn um hækkun vaxta í tíunda sinn síðan í maí í fyrra. Stýrivextirnir standa núna í 6%, hafa ekki verið hærri síðan árið 2010. Verðbólga mælist 9,4%. Dæmi um birtingarmyndir þessa: Vorið 2021 borgaði heimili með 50 millj. kr. óverðtryggt lán til 40 ára á breytilegum vöxtum um 180.000 kr. á mánuði af því láni. Greiðslur sama heimilis eru í dag um 330.000 kr. Greiðslubyrðin hefur aukist um 150.000 kr. á mánuði. Horfurnar eru dökkar, áhrifin á heimilin eru þung, á fyrirtækin og allt samfélagið og auðvitað er þessi staða erfið fyrir kjarasamninga. Vextir hér eru hærri en í Evrópu þrátt fyrir að verðbólgan sé það ekki. Verðbólgan ytra er í hæstu hæðum, það þekkjum við, m.a. vegna innrásar Rússa í Úkraínu og orkukreppu sem fylgir. En þrátt fyrir það eru stýrivextir hér þrefalt hærri en stýrivextir Evrópska seðlabankans, þrefalt hærri en á hinum Norðurlöndunum og það er útlit fyrir, því miður, að húsnæðisvextir verði áfram töluvert hærri á Íslandi en í nágrannaríkjunum. Þetta er gömul saga og ný, saga sem gleymdist að ræða þegar lágvaxtaskeiðið svokallaða var boðað. Ástæðan er ekki bara sú að þjóðin leyfi sér að fara í sumarfrí í sólina á Tenerife. Verðbólgan var ekki fundin upp á Tene. En vegna þessara íslensku aðstæðna er líka aukin þörf á aðhaldi í ríkisfjármálum, á ábyrgri efnahagsstjórn. Án hennar eru heimili landsins dæmd til að bera ein þungann af þessu verðbólguskeiði.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna þarf þrefalt hærri stýrivexti hér en í Evrópu til að vinna gegn verðbólgu sem er sú næstlægsta í álfunni?