153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

flokkun vega og snjómokstur.

[15:40]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um vetrarþjónustuna hjá okkur á vegunum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að viðhorfið hefur verið að breytast. Ég held að í sjálfu sér hafi bílarnir okkar batnað og vegirnir með. Veðrið hefur ekkert endilega versnað nema að hluta til síðastliðinn vetur. En staðreyndin er sú að við höfum ekki breytt þessum reglum síðan 2017 og 2018, að ég held, og eini vegurinn sem við bættum þá inn á er Dynjandisheiði. Það er rétt að þegar um sameiningar sveitarfélaga er að ræða er oft komið með beiðni um að vegir sem tengja betur byggðirnar séu settir í forgang og það er reynt að verða við því innan samgönguáætlunar og í þeim áherslum sem við höfum. Það hangir auðvitað verulega á auknu fjármagni. Það sama gildir auðvitað um vetrarþjónustuna sem er, held ég að megi segja, samhljóma krafa hringinn í kringum landið, allir vilja fá talsvert meiri fjármuni í mokstur og hálkuvarnir en áður var. Við höfum sannarlega verið að bregðast þar við. Ég man ekki upphæðina eins og hún er í dag. Ég held að við séum búin að tvöfalda hana á fimm árum, ég skal bara koma þeim tölum til þingmannsins. Þess vegna munum við ekki geta aukið þjónustuna þótt við breytum flokkuninni nema til komi meira fjármagn. Ég get svo sem sagt það við formann fjárlaganefndar að það verður auðvelt að koma þeim peningum út. Þörfin er sannarlega fyrir hendi. Vandinn við einstaka fjallvegi — hér var Öxi nefnd og við erum reyndar að moka hana lengur en reglan segir til um; hún var mokuð nýlega og nóvember er að verða búinn, yfirleitt er hætt að moka hana 1. nóvember. Það er einfaldlega stórhættulegt að moka hana yfir vetrartímann í allt að 20% halla, að senda (Forseti hringir.) menn á moksturstækjum við slíkar aðstæður. Þess vegna þarf að byggja veginn upp. Þá getum við farið að halda honum opnum.