153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

flokkun vega og snjómokstur.

[15:44]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og eins og ég nefndi áðan þá er Öxi á svokallaðri G-reglu, sem þýðir, ef ég man rétt, að það er ekki mokað frá 1. nóvember til 1. mars. En veturinn hefur verið snjóléttur og Öxi hefur verið haldið opinni núna í nóvember og var mokuð nýlega. Ef veðrið helst eins áfram þá held ég að það verði reynt að gera það, ég er sammála hv. þingmanni um það, við reynum auðvitað að halda öllum vegum opnum ef hægt er. Það sama gildir um einstök verkefni sem menn hafa verið að horfa í annars staðar. En af því að þingmaðurinn hljóp bara í sínum landshluta á nokkrum stöðum, (BjG: Ég kom mjög víða við.) það er hægt að gera það líka allan hringinn, þá er svarið því miður einfaldlega að við munum ekki geta gert betur með vaxandi kostnaði við þetta vegna olíukostnaðar og alls konar hluta nema við fáum snjólétta vetur eða meira fjármagn. Það er einfaldlega eina leiðin til þess að geta gert mikið betur.

Helmingaskiptareglan, sem gildir nú, held ég, á allflestum stöðum, bara misþungt eftir lengd vega, er auðvitað gerð til þess að búa til einhvern hvata til að stýra því hvernig hægt er að moka. Ég sé ekki við hverfum frá henni nema við stóraukum fjármagn til vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. En það er þörf á því, ég tek undir með hv. þingmanni með það.