153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:27]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að fulltrúar SFS hafi ekkert verið hoppandi kátir með þetta frumvarp en þeir létu það yfir sig ganga, sem er gott vegna þess að ég held að menn hafi áttað sig á því að þarna voru ákveðin mistök gerð sem er mikilvægt að leiðrétta. Varðandi þessar spurningar hv. þingmanns um hvort hér sé um varanlega breytingu að ræða eða ekki þá ítreka ég það að það er minn skilningur og það var kynnt þannig fyrir nefndinni að um væri að ræða breytingar á lögum nr. 33/2021, ef ég man rétt, þar sem þessar breytingar voru settar inn, það sem fyrningarhlutfallið fór úr 20% upp í 50%. Það er það sem er verið að leiðrétta hér. Það er minn skilningur og okkar í nefndinni alla vega og það var engin umræða um neitt annað, að hér væri verið að festa í sessi einhverjar 50% fyrningar. (Gripið fram í.) Fimm ára dreifinguna? Það er ekki samkvæmt því sem kom fram í nefndinni. Umræðan í nefndinni var ekki þannig að hér væri um einhverjar varanlegar breytingar að ræða heldur einfaldlega var verið að taka þessar fyrningar sem þarna voru og búið að ákveða með þessum lögum og dreifa þeim í fimm ár til þess að fyrirtækin misstu ekki fyrningarnar. Það er einfaldlega verið að tryggja að þau missi ekki fyrningarnar en það er verið að dreifa þeim á fimm ár þar á eftir. Eins og ég segi, nefndin leit þannig á að hér væri bara verið að bregðast við þeirri víxlverkun sem átti sér stað og menn sáu ekki fyrir.