Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var farið yfir fjárfestingar, þessar grænu fjárfestingar, eins og við kjósum að gera það. Það var ekki farið nákvæmlega í túlkunina varðandi jarðgasið og kjarnorkuna sem hv. þingmaður nefnir. En ég vil líka geta þess að þegar við förum yfir fjárfestingarnar þá veltur þetta líka mjög á því hvernig fjárfestingaraðilar, bankar, vátryggingastarfsemi o.fl.. setja þetta fram. Hitt er síðan að í þessu er ekkert því til fyrirstöðu að Ísland gangi lengra eins og við hv. þingmaður vitum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við setjum okkar reglur sem eru í samræmi við okkar stefnu þegar kemur að loftslags- og umhverfismálum. Svo lengi sem þetta er í samræmi við EES-samninginn — og við gerum okkur líka grein fyrir því að niðurstaðan af þessu var á sínum tíma samkomulag sem byggist m.a. á frumkvæði Frakka sem byggja mjög mikið hjá sér á kjarnorku. Ég vil því leyfa mér að horfa á þetta sem tímabundið af hálfu Evrópusambandsins meðan það er að komast yfir ákveðinn hjalla varðandi Úkraínustríð í dag en líka vegna þessarar umbreytingar sem er að eiga sér stað í Evrópu. Við vitum að Þjóðverjar eru að stíga önnur skref en Frakkar en ég spái því að innan fimm ára, vonandi rætist það, sjáum við ákveðnar áherslubreytingar í þessu. Nefndin fór ekki nákvæmlega yfir jarðgasið og kjarnorkuna en við veltum fyrir okkur hvaða grænu verkefni við værum að tala um og fórum yfir þau. Við mælum engu að síður með því að þetta verði samþykkt, og ég segi það m.a. í ljósi þess að Evrópusambandið er eftir sem áður enn frekar leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum, og í markmiðum í loftslagsmálum, en núverandi ríkisstjórn hér heima á Íslandi. Íslenska ríkisstjórnin getur tekið stærri skref eins og Evrópusambandið er að setja sér varðandi losun. (Forseti hringir.) Það er komið upp í 57% miðað við 2040 meðan við höngum enn í 55%.