Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[16:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta með að við getum sett okkur metnaðarfyllri markmið — það er náttúrlega borin von að núverandi ríkisstjórn gangi eitthvað lengra en hún nauðsynlega verður í þessum málum. Enn er hún ekki búin að ganga jafnlangt og hún segist ætla að ganga gagnvart samstarfinu við Evrópusambandið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þó að tvö ár séu liðin síðan ríkisstjórnin sagðist ætla að setja sér markmið um 55% samdrátt sést það ekki í aðgerðaáætlun, í fjármálaáætlun eða fjárlögum. Það sést bara í samstarfsyfirlýsingu flokkanna, innanhússplaggi sem hrindir engum raunverulegum aðgerðum í framkvæmd.

Hv. þingmaður nefndi að það velti náttúrlega á fjármálageiranum hvernig hann tekur þessi verkefni og það er alveg rétt. Kannski er líka rétt að nefna að fjármálageirinn á Íslandi hefur kallað eftir einhverju regluverki af þessu tagi árum saman á meðan þau sem eru með lyklavöldin uppi í fjármálaráðuneyti hafa bara sofið á verðinum, myndi ég segja. Hér erum við að fá þessa flóknu reglugerð inn á borð þegar við verðum að afgreiða hana. Við hefðum getað verið búin að afgreiða eitthvað sambærilegt regluverk fyrir þremur, fjórum eða fimm árum þegar bransinn var að banka upp á.

Það sem mig langar hins vegar að velta upp hér er nákvæmlega hversu frjálst okkur er að setja okkur metnaðarfyllri markmið. Þetta er framseld reglugerð. Nú man ég ekki Evrópufræðin mín alveg nógu vel en ég held að þar séum við frekar að tala um „allt eða ekkert“-innleiðingar, frekar en að innleiðingin bjóði upp á einhverja „núansa“ eftir nefi hvers lands. En hv. þingmaður er kannski betur inni í Evrópufræðunum en ég.