Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[17:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég vil kannski byrja þar sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson hætti: Hvernig tryggjum við að aðilar sem halda því fram að þeir séu með sjálfbæra fjárfestingu í höndunum séu það í raun og veru? Hvernig tryggjum við að allir þeir aðilar sem eru að fjárfesta yfir höfuð árið 2022 veiti afli fjármuna sinna í átt að sjálfbærri þróun, í átt frá fjárfestingum sem tortíma framtíðinni? Þetta hljómar kannski pínu dramatískt en það er nú bara staðreyndin.

Ég hef gaman af því að nefna dæmisögu frá því í gamla daga. Fyrsta veturinn, minnir mig, þegar ég kom inn á þing, fór ég að spyrja þáverandi hæstv. fjármálaráðherra út í eignasafn lífeyrissjóðanna. Það var búið að setja í lög um lífeyrissjóði ákvæði um að lífeyrissjóðir skyldu setja sér siðferðisleg viðmið. Ég hafði ætlað að það að tortíma ekki framtíðinni á jörðinni væri eitt af þeim viðmiðum, en ég kom að tómum kofanum þegar ég bað ráðherra um eitthvert yfirlit yfir það hvað lífeyrissjóðirnir ættu t.d. í fjárfestingum í jarðefnaeldsneytisframleiðslu. Ráðuneytið vissi það bara ekki.

Ég lagði fram fyrirspurn eftir fyrirspurn. Fyrsta fyrirspurnin var á 146. löggjafarþingi. Þá spurði ég ráðherra hvort hann héldi að við þyrftum kannski að herða á reglum um fjárfestingarstefnu til þess að það yrði alveg ljóst að fjárfestingar þeirra þjónuðu loftslagsmarkmiðum og markmiðum um sjálfbærni, sem er í rauninni bara það sem flokkunarreglugerð ESB á að ganga út á í grunninn. Þá benti ráðherra á siðferðislegu viðmiðin en svo sagðist hann líka bara halda að það ætti nú að vera frekar gagnsætt í hverju eignasafnið væri bundið og þess vegna lægju þessar upplýsingar bara mjög oft fyrir. Ég fylgdi því þessari fyrirspurn eftir með því að spyrja hann aftur hversu stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna væri bundinn í starfsemi sem fælist í vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis, bara svona til að skoða einn þátt. Það hefði alveg eins verið hægt að spyrja hversu mikið færi í vopnaframleiðslu eða í fyrirtæki sem stunda barnaþrælkun — peningar geta ratað í alls konar starfsemi ef viðmiðanna er ekki gætt. Þá svaraði ráðherrann því að hann gæti ekki svarað þessu vegna þess að lífeyrissjóðirnir væru bara einhver einkaaðili úti í bæ og ekki væri hægt að inna þá svara um eitthvað sem viðmið ættu, samkvæmt lögum, að vera um innan lífeyrissjóðanna. Áfram hélt þetta og á endanum kom í ljós að það væri kannski helst Fjármálaeftirlitið sem ætti að halda utan um einhvers konar skýrslugjöf frá lífeyrissjóðunum en gerði það ekki og hafði þar að auki á þessum tíma, þetta var á 149. löggjafarþingi, ekki mótað neinar sérstakar kröfur eða viðmið um þessi siðferðislegu viðmið varðandi fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir sem halda á — hvað er eignasafnið komið upp í? Það eru væntanlega um 10 þúsund milljarðar þessa dagana. Það er enginn með einhverja samræmda yfirsýn yfir það hvort allur þessi peningur, margföld árleg fjárlög íslenska ríkisins, almannafé, þetta er peningur fólksins í landinu, nýtist til góðs eða ekki. Þörfin á einhvers konar samræmdu regluverki varðandi sjálfbæra fjárfestingu hefur verið himinhrópandi hér árum saman.

Eins og ég kom inn á í andsvörum við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hefur fjármálageirinn í raun verið að kalla eftir þessu í nokkur ár. Það er langt síðan við sem mættum á viðskiptaþing tókum eftir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem mættu þangað reyttu af sér brandara um að vera grænasta fólkið í salnum — að það væri einhvern veginn svo flippað að grænir og vinstri sinnaðir ráðherrar væru umkringdir einhverjum fjármálamógúlum. En svo þegar fjármálamógúlarnir héldu ræður þá voru þeir miklu grænni, tilbúnir að stíga skrefin áfram, á meðan stjórnmálin voru föst í einhverri fornri frægð, héldu að þau væru algerlega með þetta en voru bara að úreldast. Þetta var orðið himinhrópandi fyrir þremur til fjórum árum þar sem viðskiptaþing — ég biðst forláts, forseti, Covid ruglar einhvern veginn allt tímaskyn þannig að ég slumpa á árin — var undir grænni yfirskrift. Þetta var grænt viðskiptaþing, það var um það hvernig viðskiptalífið gæti lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og í átt að sjálfbærni. Þá kom náttúrlega fram hjá fjölda fólks að það vantaði skýrari stefnu hjá hinu opinbera varðandi fjárfestingar hins opinbera. Það vantaði skýrari leiðsögn frá hinu opinbera varðandi það hvað það væri sem kalla mætti græna fjárfestingu. Grænþvottur kemur sér ekki jafn illa fyrir neinn og metnaðarfullan fjárfesti sem vill gera vel. Ef þú ert fjárfestir að leggja þig fram um að ávaxta fé og gera það á ábyrgan hátt fyrir framtíðina þá viltu ekki að einhverjir slúbbertar geti fengið sama græna stimpilinn á það sem þeir eru að gera, bara vegna þess að stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að útbúa einhvern ramma utan um þessar fjárfestingar þannig að öll sitji við sama borð.

Það er því ágætt að Evrópusambandið hafi tekið ómakið af ríkisstjórn Íslands og sett af stað vinnu við að móta þennan ramma sem er þessi flokkunarreglugerð Evrópusambandsins — kannski ekki mest spennandi nafnið en hugmyndin er góð og er hluti af græna samfélagssáttmálanum sem Evrópusambandið setti sér fyrir nokkrum árum þaðan sem við höfum líka aukinn metnað varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem hefur lekið hingað til lands og orðið þakið í því sem íslensk stjórnvöld treysta sér til að gera. Ekki geta íslensk stjórnvöld gengið miklu lengra en Evrópusambandið neyðir þau til að gera eins og þau eru samsett í dag.

Mig langar að þessu sögðu aðeins að víkja að þeirri neikvæðu þróun sem hefur átt sér stað á síðustu mánuðum, á síðasta ári, frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kom fram með endanlega útfærslu flokkunarreglugerðarinnar og lagði fyrir Evrópuþingið. Þá var búið að troða inn í það sem var annars nokkuð skýrt og gott regluverk — þar sem búnir voru til sex yfirflokkar fjárfestinga sem gætu flokkast sem sjálfbærar og væru að miða í rétta átt — leiðindafjárfestingum sem er erfitt að segja annað en að séu afleiðing af því að það hafi verið sterk þrýstiöfl, sterk hagsmunaöfl, sem hafi haft áhrif á niðurstöður framkvæmdastjórnarinnar.

Hér í andsvari nefndi ég sérstaklega orkuframleiðslu með kjarnorku og jarðgasi sem flokkast samkvæmt þessari reglugerð sem sjálfbær fjárfesting. Þessu hefur hluti þeirra sem sitja á Evrópuþinginu barist nokkuð hart gegn. Þetta hefur verið kallað að eitthvert jarðefnaeldsneytisbandalag hafi troðið grænþvotti inn í orkugeirann. Það fór nú svo að í vor lagðist meiri hluti umhverfisnefndar Evrópuþingsins gegn því að jarðgasi og kjarnorku yrði bætt inn í flokkunarreglugerðina en þegar til endanlegrar atkvæðagreiðslu innan þingsins kom þá náðist ekki sá meiri hluti sem þurfti til að fella þetta út. Það munaði þó litlu. Það voru 278 þingmenn sem greiddu atkvæði með því að jarðgas og kjarnorka færu út úr reglugerðinni en 328 sem studdu þetta. Þar eru flokkalínurnar mjög skýrar. Flokkahóparnir sem vildu hreinsa reglugerðina af þessum viðbótum — ætli þeir séu ekki fjær harðasta hægrinu í Evrópu, svo við orðum það þannig. Græningjar studdu það allir, eðli máls samkvæmt, að hreinsa reglugerðina af gasi og kjarnorku og þar sitja einmitt þeir Evrópuþingmenn sem Píratar í álfunni hafa komið inn á Evrópuþingið. Svo voru sósíaldemókratar nokkuð sterkir í þessu og síðan nokkuð áberandi minni hluti í tveimur hægri blokkum, annars vegar EDP, kristilegu demókrötunum, og hins vegar frjálslynda arminum sem heitir Renew, þar sem systurflokkar Viðreisnar sitja. Já, svo fór sem fór og jarðgas og kjarnorka eru inni í flokkunarreglugerðinni.

Þá erum við í smáklemmu, forseti. Það eru auðvitað ákvæði í þessari reglugerð sem kveða á um aukna upplýsingagjöf þannig að það verður kannski hægt að plokka vitleysuna út úr þessu og búa til skýra mynd með einhverri smávinnu. Ég reikna með að félagasamtök muni taka það að sér, þegar þetta fer í gang, að hjálpa almenningi við að fá góða yfirsýn yfir það hverju reglugerðin er í raun að skila. En það sem þetta gerir er að þetta grautar saman fjárfestingum, sem eru raunverulega grænar og snúast um endurnýjanlega orkugjafa, orkuskipti og allt það, og jarðgas. Jarðgas hefur verið endurmarkaðssett sem millistig til að hjálpa ríkjum að komast úr því að brenna kolum, sem eru vissulega verri, bæði upp á losun gróðurhúsalofttegunda að gera og vegna mengunar í nærsamfélaginu; að gasið geti verið millistig frá kolunum yfir í grænu og sjálfbæru orkuna.

Málið er náttúrlega, frú forseti, að ef við ætlum að ná einhverjum markmiðum 2030 eða 2040, eins og Evrópa stefnir öll að, þá stoðar ekkert að vera að byggja einhver gasorkuver árið 2023 sem verða þá í rekstri megnið af þessum tíma. Þar að auki er þetta það sem flokkast — hvað var þetta aftur kallað í loftslagssamningnum — sem stuðningur við innviði jarðefnaeldsneytis. Þetta er eiginlega á svo gráu svæði að það er orðið býsna svart. Fjárfestingar af þessu tagi, þó að þær séu skárri en kolin, tempra kannski það flæði fjármagns sem gæti runnið til raunverulega grænna orkukosta. Þegar staðan er orðin sú að kílóvattsstundin sem er framleidd með gasi er eiginlega aldrei ódýrari en vind- eða sólarorkukílóvattsstundin í Evrópu þá skín engin skynsemi af þessari ákvörðun önnur en skynsemin sem hagsmunaöflin jarðefnaeldsneytismegin sjá út úr þessu.

Varðandi kjarnorkuna þá er það náttúrlega alveg makalaust, og eitthvað sem við tókum eftir sem mættum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í fyrra, að kjarnorkubransinn var allt í einu mættur í massavís og var að lobbíera fyrir því að kjarnorkan væri hin fullkomna lausn á vandanum sem mannkynið stæði frammi fyrir í dag. Það er svo sem alveg hægt að taka undir það með þeim að framleiðsla rafmagns með kjarnorku losar ekki jafn mikið af koltvísýringi og framleiðsla rafmagns með bruna jarðefnaeldsneytis. En það er allt hitt, þ.e. sú staðreynd að vinnsla hráefna í kjarnaofnum hefur alveg gríðarleg umhverfisáhrif og hreinsun þeirra. Síðan verður til geislavirkur úrgangur sem ég held að mannkynið sé ekki enn komið með einhverja góða lausn á hvernig eigi að losa sig við þannig að öruggt sé. Til að kóróna vitleysuna varðandi kjarnorkuna þá er sú tækni sem kjarnaofnar í dag byggja á margfalt dýrari en allir aðrir orkukostir. Óhagstæðasta rafmagn sem hægt er að framleiða í dag fæst með því að byggja nýja kjarnaofna. Ef litið er á kjarnorku sem einhverja lausn á loftslagsvandanum þá verðum við líka að horfa á tímarammann — ætli það taki ekki 10–15 ár að koma nýju kjarnorkuveri í gagnið? Þá er árið 2040 bara komið, við erum allt í einu komin á endapunkt. Þær fjárfestingar sem flokkunarreglugerðin ætti að vera að hvetja til ættu að vera mun grænni en líka af því taginu sem er hægt að koma í gagnið miklu fyrr eins og er t.d. hægt með vindmyllum eða sólarsellum þar sem sú innleiðing er komin vel af stað. Þá væri hægt að slá uppsettu afli mun hraðar upp en nokkurn tímann er hægt með þessum gamaldags gas- og kjarnaofnum.

Með þessu máli hangir frumvarp sem liggur í efnahags- og viðskiptanefnd og snýst um innleiðingu á flokkunarreglugerðinni. Ég vænti þess að efnahags- og viðskiptanefnd sé að skoða þessi álitaefni og hvort einhvern veginn sé hægt að ná utan um þetta þannig að Ísland gangi fram með einhverju aðeins betra fordæmi, að við náum að sýna meiri metnað í þessum málum en hagsmunagæsla jarðefnaiðnaðarins náði að prútta Brussel niður í. Svo þarf náttúrlega líka að fylgjast með framvindu þeirra dómsmála sem von er á á meginlandinu. Næstum helmingur þingmanna á Evrópuþinginu lagðist gegn því að jarðgas og kjarnorka væru flokkuð sem sjálfbærir fjárfestingarkostir og eins eru hreint ekki allar ríkisstjórnir í Evrópusambandinu par hrifnar af þessum hugmyndum. Þannig hafa ríkisstjórnir Austurríkis og Lúxemborgar boðað að þær muni láta reyna á þetta regluverk fyrir Evrópudómstólnum. Ef ég man rétt er Austurríki í þeirri óvenjulegu stöðu að hafa greitt þjóðaratkvæði um kjarnorku fyrir einhverjum áratugum. Tekin var ákvörðun af stjórnmálafólki og almenningi í Austurríki fyrir margt löngu um að taka ekki þátt í kjarnorkukapphlaupinu heldur byggja frekar á hefðbundnari orkukostum. Það er ákvörðun sem hefur elst ágætlega og ekki slæmt að þau fylgi því eftir með því að láta reyna á það hvort mögulega hafi Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins farið fram úr sér með því að ramma flokkunarreglugerðina inn með þeim hætti sem hún er.